Flugmenn falli frá launahækkunum

Þær hagræðingar sem stefnt var að í kjarasamningi Icelandair við flugmenn og flugstjóra hafa ekki skilað sér í rekstrinum vegna kyrrsetningar á Boeing MAX þotum. Forsvarsmenn félagsins hafa því farið fram á breytingar á ákvæðum í samningnum.

MYND: SOUNDERBRUCE / CREATIVECOMMONS 4.0)

Flugmenn og flugstjórar Icelandair eiga von á launahækkun þann 1. október nk. Forsvarsmenn flugfélagsins hafa nú óskað eftir því að fallið verði frá þessum hækkunum í ljósi stöðu félagsins og breyttra forsenda frá gerð núgildandi kjarasamnings. Þetta kemur fram í bréfi sem Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, hefur sent félagsmönnum sínum, sem flestir vinna hjá Icelandair.

Aðspurður um þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í svari til Túrista, að þarna sé að aðallega um að ræða svokallaðan flugauka sem átti að koma til vegna hagræðingaaðgerða sem samið var um í síðustu samningum. „Vegna aðstæðna hafa hagræðingarnar ekki skilað sér í rekstrinum m.a. vegna kyrrsetningar á MAX þotum,“ segir Bogi. Hann bætir því við að almennt hafi starfsmenn Icelandair ekki fengið greiddar bónusgreiðslur í ár enda ekki tilefni til í ljósi afkomu síðasta árs. Þá tapaði félagið nærri sjö milljörðum króna og tapið á fyrsta fjórðungi þess árs var álíka hátt.

Fall WOW air hefur líklega haft jákvæð áhrif á afkomu félagsins síðustu mánuði meðal annars vegna hækkandi fargjalda. Á móti kemur þá hefur kyrrsetning á Boeing MAX þotunum vafalítið reynst þungt högg. Vegna ástandsins þá hefur Icelandair þurft að fella niður ferðir og leigja flugvélar til að fylla það skarð sem er í flugflota félagsins. Á sama tíma þarf að standa skil á afborgunum á nýjum MAX þotum sem staðið hafa óhreyfðar á flugbrautunum á Keflavíkurflugvelli og við verksmiðjur Boeing vestanhafs síðan um miðjan mars. Ekki er ljóst hvenær kyrrsetningunni verður aflétt en nýjustu fréttir herma að það gæti orðið um áramótin.

Í fyrrnefndu bréfi formanns FÍA til félagsmanna segir að flugmenn Icelandair hafi þegar fengið launahækkun í ársbyrjun upp á 2,5 prósent en yfirvofandi hækkun í haust nemur 3 prósentustigum á flugauka flugmanna og 2,5 prósentum á flugstjóraálag. Til viðbótar við niðurfellingu á þessum hækkunum þá hefur Icelandair óskað eftir því að ýmis önnur atriði verði endurskoðuð, t.d. varðandi keypta frídaga, útkall á varavaktir og fleira. Þessum atriðum hefur FÍA ákveðið að vísa til viðræðna um nýjan kjarasamning sem hefjast eiga í næsta mánuði. Núgildandi samningur rennur út um áramótin.