Bjóða 24 milljónir króna fyrir Íslandsflug

Flugþróunarsjóður á Kanaríeyjum býður þeim sem hefja flug milli Íslands og Fuerteventura vænan styrk.

kanari strond
Sandströndin við Playa de Jandia á Fuerteventura. Mynd: Ferðamálaráð Kanaríeyja

Fjöldi íslenskra ferðamanna á Tenerife og Kanarí hefur aukist hratt síðustu ár og í vetur verða flugferðirnar þangað tíðari en áður. Ferðamálayfirvöld á Kanaríeyjum virðast þó telja að eyjarnar eigi þónokkuð inni og bjóða nú hátt í 175 þúsund evrur, eða tæpar 24 milljónir króna, í styrk til flugfélags eða ferðaskrifstofu sem hefur beint flug milli Íslands og Fuerteventura. Hún er sú næst stærsta af eyjunum sem teljast til Kanaríeyja en Tenerife er þeirra stærst.

Í tilkynningu segir að styrkveiting fyrir Íslandsflug frá Fuerteventura sé ekki bundin við áætlunarflug allt árið um kring. Tímabundið leiguflug kæmi þá líka til greina þó gera megi ráð fyrir að upphæðin skerðist þá eitthvað. Auk styrkveitingar fyrir Íslandsflug til og frá Fuerteventura þá býðst sambærilegt framlag fyrir flug til eyjunnar frá Vínarborg, Búkarest, Kraká og Moskvu.

Ríkisstjórn Íslands setti í október 2015 á fót flugþróunarsjóð til að efla nýjar alþjóðlegar flugleiðir til og frá Akureyrarflugvelli og Egilstaðaflugvelli. Úr þessum sjóði hafa nokkrar ferðaskrifstofur og flugfélög fengið styrki til þessa en ný fjármálaætlun mun ekki gera ráð fyrir áframhaldandi fjárveitingum í sjóðinn. Spánverjar sem einnig eiga mikið undir ferðaþjónustu komið virðast þó ekki slá af styrki til að efla flugsamgöngur til landsins þrátt fyrir stríðan straum ferðamanna síðustu ár.