Fjórð­ungi færri flug­ferðir út í heim

Í júní í fyrra voru farnar að jafnaði eitt hundrað áætlunarferðir á dag frá Keflavíkurflugvelli en í nýliðnum mánuði voru þær sjötíu og fimm.

flug danist soh
Mynd: Danist Soh / Unsplash

Þotur WOW air fóru 962 áætl­un­ar­ferðir frá Kefla­vík­ur­flug­velli í júní í fyrra og stóð félagið þá fyrir um þriðju hverju brottför frá flug­vell­inum. Þetta stóra skarð sem WOW air skilur eftir sig hefur aðeins að litlu leyti verið fyllt og því fækkaði áætl­un­ar­ferð­unum í nýliðnum júní um fjórðung samkvæmt taln­ingum Túrista.

Helsta ástæðan fyrir því að samdrátt­urinn reyndist minni en sem nemur vægi WOW air í fyrra er sú að ferða­fjöldinn hjá Icelandair jókst um nærri fimmtung í júní. Eins fjölgaði ferðum Wizz Air um tuttugu en þetta ungverska lággjalda­flug­félag er orðið næst umsvifa­mesta flug­fé­lagið á Kefla­vík­ur­flug­velli eins og sjá má hér að neðan.

Nýbirtar tölur Ferða­mála­stofu sýna að erlendum ferða­mönnum á landinu í júní fækkað um 17,6 prósent. Í maí var hlut­falls­legur munur á fjölda flug­ferða og ferða­manna hins vegar minni en í júní. Það er vísbending um að vægi erlendra ferða­manna í flug­vél­unum sem flugu til og frá landinu í júní hafi verið hærra en í maí.