Fleiri farþegar þrátt fyrir kyrrsettar MAX þotur

Nærri 73 þúsund fleiri farþegar nýttu sér flugferðir Icelandair í júní og þoturnar voru þéttsetnari en áður.

Nærri níu af hverjum tíu sætum um borð í þotum Icelandair voru skipuð farþegum í júni. Mynd: Icelandair

Upphafleg sumaráætlun Icelandair byggði á því flugfélagið hefði níu Boeing MAX þotur til umráða. Allar flugvélar af þeirri tegund voru hins vegar kyrrsettar um miðjan mars og það skarð sem þoturnar skyldu eftir sig var aðeins að hluta til fyllt með leiguflugvélum. Samanlagður sætafjöldi í flugflotanum dróst því saman. Engu að síður jókst framboð félagsins á flugsætum um átta af hundraði í nýliðnum júní. Skýringin á því liggur að miklu leyti í nýrri flugáætlun sem félagið innleiddi í vor sem eykur nýtinguna á flugflotanum eins og Túristi hefur áður fjallað um.

Farþegum Icelandair í júní fjölgaði svo hlutfallslega meira en sem nemur auknu framboði því fimmtán prósent fleiri nýttu sér ferðir félagsins. Samtals nam fjöldinn um 553 þúsund farþegum og var sætanýtingin 88 prósent samanborið við 84,4 prósent í júní í fyrra og 86 prósent í júní 2017.

Sætanýting er almennt há hjá flugfélögum á sumrin og þannig var nýtingin 91,7 prósent hjá KLM í júní, 89,4 prósent hjá Air France og 90,4 hjá Delta í Bandaríkjunum. Hjá SAS lækkaði nýtingin hins vegar lítillega og fór niður í 81,5 prósent en meðalfargjaldið hækkaði hins vegar umtalsvert líkt. Stjórnendur Icelandair deila hins vegar ekki upplýsingum um verðþróun með sama hætti.

Farþegahópurinn í vélum Icelandair hefur breyst umtalsvert síðustu mánuði. Nú eru ferðamenn á leið til Íslands mun fleiri í farþegarýminu og voru þeir um 211 þúsund í júní eða 41 prósent fleiri en á sama tíma í fyrra. Tengifarþegar eru ennþá fjölmennastir en lítilsháttar samdráttur varð í fjölda þeirra í júní. Farþegum sem hefja ferðalagið á Íslandi fjölgaði hins vegar um rúmlega fjórðung.