Flugmálayfirvöld í Washington kannast ekki við komu WOW air til borgarinnar

Michele Ballarin, upphafskona endurreisnar WOW air, hélt mörgu fram í Morgunblaðinu í gær. Hún sagði meðal annars að yfirvöld á Dullesflugvelli væru spennt fyrir að hýsa heimahöfn flugfélagsins. Fjölmiðlafulltrúi flugvallarins segist þó ekki kannast við þessi áform.

Mynd: London Stansted

Allt frá því að Fréttablaðið greindi frá kaupum á helstu eignum þrotabús WOW air og Viðskiptablaðið uppljóstraði að þar væri á ferðinni bandarísk kona að nafni Michele Ballarin hefur verið beðið eftir nánari upplýsingum um áform hennar með eignirnar. Í gærmorgun birtist svo tveggja opnu viðtal við Ballarin í viðskiptakálfi Morgunblaðsins. Þar segist hún ásamt meðfjárfestum ætla að leggja hátt í 13 milljarða króna í endurreisn WOW air í gegnum félagið US Aerospace Associates sem skráð er í Bandaríkjunum.

Í viðtalinu opinberar hún áætlanir um að WOW air verði fyrsta evrópska flugfélagið með höfuðstöðvar á Dulles flugvelli í Washington. Í Mogganum segir Ballarin frá fundum sínum með flugmálayfirvöldum í bandarísku höfuðborginni og segir þau „ótrúlega spennt“ fyrir komu WOW air. Þessi lýsing er þó ekki í takt við þau svör sem Túristi hefur fengið frá fjölmiðlafulltrúum Dulles. Þar segir að flugmálayfirvöld Washington svæðisins þekki ekki til US Aerospace Associates eða félaga sem tengjast frú Ballarin. Í svarinu segir jafnframt að forsvarsfólk flugfélaga hafi reglulega samband við yfirvöld og lýsi yfir áhuga á að hefja flug til borgarinnar. Á þessari stundu liggi hins vegar ekkert fyrir um komu nýrra flugfélaga eða nýrra flugleiða til og frá Washington Dulles.

Burt séð frá þessu atriði þá eru viðmælendur Túrista, meðal annars þeir sem þekkja vel til flugreksturs, á einu máli um að yfirlýsingar Ballerin í Mogganum í gær séu ekki trúverðugar. Sumir fara heldur ekki leynt með vonbrigði sín með að sú sem fer fyrir endurreisn fyrirtækis, sem skilgreint var sem kerfislega mikilvægt af íslenskum stjórnvöldum, skuli ekki þekkja betur til mála en raun ber vitni. Það skíni í raun í gegn hversu litla reynslu hún hafi af farþegaflugi nema sem farþegi.

Fullyrðingar um að þeir sem sitja á almennu farrými skili í raun mestum tekjum eru til að mynda ekki í takt við veruleikan og áform um að opna sérstaka setustofu fyrir farþega WOW á Dulles flugvelli þykja sérkennilegar. Rekstur á þess háttar aðstöðu er vanalega ekki hluti af rekstri lággjaldaflugfélaga og allra síst á flugvelli sem flugfélag notar aðeins til að fljúga til frá einum áfangastað. Þannig er erfitt að sjá fyrir sér rekstur á sérstakri WOW setustofu á Dulles flugvelli sem aðeins yrði nýtt í tengslum við eitt til tvö flug á dag til Íslands.

Ballarin nefnir í viðtalinu nokkra samstarfsmenn sína hjá USAerospace Associates og segir framkvæmdastjóra þess, Charles Celli, búa yfir mikilli reynslu af flugmálum. Tilgreinir hún sérstaklega að hann hafi verið forstjóri Gulfstream flugvélaframleiðandans. Á Linkedin síðu Celli kemur hins vegar fram að hann hafi verið einn af framkvæmdastjórum Gulfstream en ekki forstjóri. Fór hann fyrir þjónustusviði Gulfstream í Savannah í Georgíu samkvæmt frétt af heimasíðu félagsins.

Túristi hefur reynt að ná tali af Celli en hann var ekki við þegar hringt var á skrifstofur USAerospace Associates. Sá sem svaraði í símann gat ekki veitt upplýsingar um hvort Celli væri framkvæmdastjóri fyrirtækisins eða ekki. Á fyrrnefndri Linkedin síðu Celli er ekki minnst á störf hans hjá USAerospace og er hann sagður vera forstjóri Flightstar Aircraft Services en það fyrirtæki er í Flórída.

Túristi hefur fengið vilyrði frá Páli Ágústi Ólafssyni, lögmanni USAerospace Associates, fyrir nánari útskýringum á ofan nefndum atriðum auk annarra. Þau svör verða birt um leið og þau berast.