Flug­mála­yf­ir­völd í Washington kannast ekki við komu WOW air til borg­ar­innar

Michele Ballarin, upphafskona endurreisnar WOW air, hélt mörgu fram í Morgunblaðinu í gær. Hún sagði meðal annars að yfirvöld á Dullesflugvelli væru spennt fyrir að hýsa heimahöfn flugfélagsins. Fjölmiðlafulltrúi flugvallarins segist þó ekki kannast við þessi áform.

Mynd: London Stansted

Allt frá því að Frétta­blaðið greindi frá kaupum á helstu eignum þrotabús WOW air og Viðskipta­blaðið uppljóstraði að þar væri á ferð­inni banda­rísk kona að nafni Michele Ball­arin hefur verið beðið eftir nánari upplýs­ingum um áform hennar með eign­irnar. Í gærmorgun birtist svo tveggja opnu viðtal við Ball­arin í viðskipta­kálfi Morg­un­blaðsins. Þar segist hún ásamt meðfjár­festum ætla að leggja hátt í 13 millj­arða króna í endur­reisn WOW air í gegnum félagið US Aerospace Associates sem skráð er í Banda­ríkj­unum.

Í viðtalinu opin­berar hún áætlanir um að WOW air verði fyrsta evrópska flug­fé­lagið með höfuð­stöðvar á Dulles flug­velli í Washington. Í Mogg­anum segir Ball­arin frá fundum sínum með flug­mála­yf­ir­völdum í banda­rísku höfuð­borg­inni og segir þau „ótrú­lega spennt” fyrir komu WOW air. Þessi lýsing er þó ekki í takt við þau svör sem Túristi hefur fengið frá fjöl­miðla­full­trúum Dulles. Þar segir að flug­mála­yf­ir­völd Washington svæð­isins þekki ekki til US Aerospace Associates eða félaga sem tengjast frú Ball­arin. Í svarinu segir jafn­framt að forsvars­fólk flug­fé­laga hafi reglu­lega samband við yfir­völd og lýsi yfir áhuga á að hefja flug til borg­ar­innar. Á þessari stundu liggi hins vegar ekkert fyrir um komu nýrra flug­fé­laga eða nýrra flug­leiða til og frá Washington Dulles.

Burt séð frá þessu atriði þá eru viðmæl­endur Túrista, meðal annars þeir sem þekkja vel til flugreksturs, á einu máli um að yfir­lýs­ingar Ballerin í Mogg­anum í gær séu ekki trúverð­ugar. Sumir fara heldur ekki leynt með vonbrigði sín með að sú sem fer fyrir endur­reisn fyrir­tækis, sem skil­greint var sem kerf­is­lega mikil­vægt af íslenskum stjórn­völdum, skuli ekki þekkja betur til mála en raun ber vitni. Það skíni í raun í gegn hversu litla reynslu hún hafi af farþega­flugi nema sem farþegi.

Full­yrð­ingar um að þeir sem sitja á almennu farrými skili í raun mestum tekjum eru til að mynda ekki í takt við veru­leikan og áform um að opna sérstaka setu­stofu fyrir farþega WOW á Dulles flug­velli þykja sérkenni­legar. Rekstur á þess háttar aðstöðu er vana­lega ekki hluti af rekstri lággjalda­flug­fé­laga og allra síst á flug­velli sem flug­félag notar aðeins til að fljúga til frá einum áfanga­stað. Þannig er erfitt að sjá fyrir sér rekstur á sérstakri WOW setu­stofu á Dulles flug­velli sem aðeins yrði nýtt í tengslum við eitt til tvö flug á dag til Íslands.

Ball­arin nefnir í viðtalinu nokkra samstarfs­menn sína hjá USAerospace Associates og segir fram­kvæmda­stjóra þess, Charles Celli, búa yfir mikilli reynslu af flug­málum. Tilgreinir hún sérstak­lega að hann hafi verið forstjóri Gulf­stream flug­véla­fram­leið­andans. Á Linkedin síðu Celli kemur hins vegar fram að hann hafi verið einn af fram­kvæmda­stjórum Gulf­stream en ekki forstjóri. Fór hann fyrir þjón­ustu­sviði Gulf­stream í Savannah í Georgíu samkvæmt frétt af heima­síðu félagsins.

Túristi hefur reynt að ná tali af Celli en hann var ekki við þegar hringt var á skrif­stofur USAerospace Associates. Sá sem svaraði í símann gat ekki veitt upplýs­ingar um hvort Celli væri fram­kvæmda­stjóri fyrir­tæk­isins eða ekki. Á fyrr­nefndri Linkedin síðu Celli er ekki minnst á störf hans hjá USAerospace og er hann sagður vera forstjóri Flig­ht­star Aircraft Services en það fyrir­tæki er í Flórída.

Túristi hefur fengið vilyrði frá Páli Ágústi Ólafs­syni, lögmanni USAerospace Associates, fyrir nánari útskýr­ingum á ofan nefndum atriðum auk annarra. Þau svör verða birt um leið og þau berast.