Framlagið frá farþegum WOW hefði numið um tíund af tekjum Landverndar

Sú staðreynd að myntsöfnun í þotum WOW air skilaði sér ekki til Landverndar setti samtökin í mikinn fjárhagslega vanda.

Frá afhendingu framlags farþega WOW og flugfélagsins sjálfs til Landverndar í apríl 2018. Þá fengu samtökin hátt í 18 milljónir og miðað við fjölgun farþega í fyrra mátti búast við ennþá hærri upphæð fyrir síðasta tímabil. Mynd: WOW air

WOW air stóð fyrir myntsöfnun um borð í þotum sínum meðal farþega og átti afraksturinn að renna til Landverndar. Fyrra árið sem átakið stóð yfir söfnuðust um 9 milljónir meðal farþega og flugfélagið sjálft lagði fram jafn háa upphæð. Landvernd fékk því nærri 18 milljónir afhentar frá WOW air og farþegum þess í apríl í fyrra. Umhverfissamtökin fengu þó ekki það fé sem safnaðist meðal farþega WOW air síðustu tólf mánuði líkt og Vísir greindi frá í gær. Þar er haft eftir Tryggva Felixssyni, formanni Landverndar, að samtökin hafi átt von á nokkrum milljónum frá WOW nú í vor.

Upphæðin var hins vegar nokkru hærri eða að lágmarki tíu milljónir króna samkvæmt svari frá Auði Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, við fyrirspurn sem Túristi sendi samtökunum í fyrradag. Er þá aðeins litið til framlags farþega WOW en sem fyrr segir nam mótframlag WOW air í fyrra jafn hárri upphæð. Landvernd hefði því getað fengið um tuttugu milljónir frá WOW og farþegum þess nú í vor.

„Þetta setti okkur í mikinn fjárhagslegan vanda enda til samningur sem við gerðum ráð fyrir að stæði og við þurftum að skera niður strax og flugfélagið fór í þrot 2019,“ segir Auður. Hún bendir á að tíu milljón króna framlag frá farþegum WOW hefði numið um tíund af heildartekjum Landverndar í fyrra. Samtökin skiluðu 2,5 milljón króna tapi á síðasta ári og rekstrarniðurstaðan hefði því verið allt önnur ef myntin frá farþegum WOW hefði skilað sér.

Landvernd hefur gert kröfu í þrotabú flugfélagsins en allt það fé sem safnaðist meðal farþeganna var lagt inn á sérreikning í vörslu WOW air að sögn Auðar. Inn á honum voru þegar um átta milljónir undir lok síðasta árs en erfitt reyndist fyrir starfsfólk Landverndar að fá upplýsingar um söfnuna í ár þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.