Fyrsta helgarferðin til Kraká kostar lítið

Í haust hefst beint flug á ný milli Íslands og pólsku borgarinnar Kraká.

Frá Kraká. Mynd: Lucas Albuquerque / Unsplash

Beint flug til Kraká, næst fjölmennustu borgar Póllands, var fastur liður í sumaráætlun Iceland Express og þangað flaug WOW air líka fyrsta sumarið sem félagið starfaði. Kraká datt svo út af dagskrá félaganna tveggja en WOW air hélt þó alltaf áfram flugi til Varsjár, höfuðborgar landsins.

Með tilkomu Íslandsflugs Wizz Air jókst framboð á flugi héðan til Póllands gríðarlega og nú í sumar fljúga þotur félagsins til að mynda hingað frá fjórum pólskum borgum. Kraká er þó ekki þeirra á meðal jafnvel þó hún hafi lengi verið einn helsti viðkomustaður ferðamanna í Póllandi. Meginskýringin á því er sú að borgin hefur varðveist vel og miðbær hennar komst á heimsminjaskrá Unesco fyrir fjörtíu árum síðan.

Frá og með haustinu geta Íslendingar hins vegar komist beint til  Kraká á ný frá Keflavíkurflugvelli. Fyrsta ferðin verður farin mánudagsmorguninn 16. september en einnig verður flogið héðan seinni part föstudags. Þar með opnast möguleikar á helgarferðum til borgarinnar en reyndar verður nætursvefninn síðustu nóttina stuttur því vélin fer í loftið fra Kraká klukkan hálf sjö á mánudagsmorgnum.

Þeir sem láta það ekki fæla sig frá geta komist til pólsku borgarinnar fyrir lítið og sérstaklega ef þeir ferðast með lítinn farangur. Þannig kostar flug þangað með Wizz Air föstudaginn 20. september og heim á mánudeginum fyrir rétt um 15 þúsund krónur. Svo ódýrar helgarferðir eru ekki í boði næstu mánuði eins og staðan er í dag en það gæti breyst þegar nær líður.