Gott ferðaár hjá Íslend­ingum

Á fyrri helmingi ársins flugu 307 þúsund íslenskir farþegar frá Keflavíkurflugvelli. Þetta er samdráttur miðað við sama tíma í fyrra en ferðagleðin hefur verið töluvert meiri en árin þar á undan.

Farþegar um borð í þotu easyJet er félagið hefur síðustu sjö ár boðið upp á flug héðan til Bretlands og Sviss. Mynd: easyJet

Ferða­metin hafa fallið hratt síðustu ár þegar litið er til fjölda íslenskra farþega í hverjum mánuði fyrir sig. Öll ferða­metin frá árunum fyrir hrun eru nú horfin af list­anum yfir þá tíu mánuði sem landinn hefur verið mest á faralds­fæti. Og nýliðinn júní er í fjórða sæti á list­anum eins og sjá má hér fyrir neðan.

Metið frá því í júní í fyrra verður þó ólík­lega slegið í ár enda hefur framboð á flugi dregist saman og þá ýtti þátt­taka karla­lands­liðsins í fótbolta í heims­meist­ara­mótinu í Rússlandi undir ferða­gleðina. Það sama var upp á teningnum í júní 2016 þegar liðið spilaði á EM í Frakklandi en sá mánuður er í öðru sæti á topp­list­anum.

Þegar litið er yfir fyrri helming ársins kemur í ljós að aðeins færri fóru til útlanda á tíma­bilinu í saman­burði við fyrstu sex mánuðina í fyrra. Hins vegar hafa miklu fleiri Íslend­ingar flogið út í heim í ár en á árum áður. Til saman­burðar má til að mynda gera ráð fyrir því að í lok þessa mánaðar hafi fleiri Íslend­ingar farið til útlanda en allt árið 2013.

Eins og gefur að skilja er hver Íslend­ingur talinn í hvert skipti sem hann fer í gegnum vopna­leitina í Leifs­stöð og Íslend­ingar búsettir út í heimi eru taldir sem íslenskir farþegar.