Hætta við daglegt Lundúnarflug í vetur

Annað árið í röð þá draga forsvarsmenn Wizz Air í land þegar kemur að daglegum flugferðum milli Íslands og höfuðborgar Bretlands.

Mynd: Wizz Air

Í apríl í fyrra hóf ungverska flugfélagið Wizz Air að fljúga hingað frá Luton flugvelli við London og þá voru á boðstólum fjórar ferðir í viku. Nokkrum dögum eftir gjaldþrot WOW air í vetrarlok þá boðuðu stjórnendur Wizz Air daglegt flug hingað frá bresku höfuðborginni og nú fljúga þotur félagsins alla daga vikunnar milli Keflavíkurflugvallar og Luton.

Vetraráætlun lággjaldafélagsins gerir þó aðeins ráð fyrir fimm ferðum í viku ef frá eru taldar daglegar ferðir í kringum jólin. Í svari við fyrirspurn Túrista þá staðfestir talsmaður félagsins þessa breytingu. Hann segir að hjá Wizz Air sé flugáætlunin sífellt til skoðunar og hún löguð að bókunarstöðu fram í tímann.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Wizz Air dregur í land þegar kemur að áætlunarflugi hingað frá London. Síðastliðinn vetur ætlaði félagið líka að vera með daglegar brottfarir frá flugvellinum í Luton til Íslands en það gekk ekki eftir vegna skorts á eftirspurn. Og svo virðist sem sú staða hafa ekki breyst nægjanlega mikið þrátt fyrir brotthvarf WOW air og samdrátt í Íslandsflugi easyJet.