Hagnaður umfram væntingar og forstjórinn hættir

Eftir sautján ár í brúnni hjá Norwegian flugfélaginu hefur Bjørn Kjos ákveðið að láta af störfum.

bjornkjos
Mynd: Norwegian

Leit að eftirmanni Bjørn Kjos í forstjórastjól Norwegian flugfélagsins hefur farið fram síðustu mánuði eða allt frá því að hann sagðist sjálfur vilja draga sig í hlé vegna aldurs. Kjos er 72 ára og er einn af stofnendum Norwegian. Á afkomufundi flugfélagsins í morgun tilkynnti Kjos að hann ætlaði að draga sig í hlé eftir sautján ár í brúnni og að fjármálastjóri flugfélagsins tæki við tímabundið. Í viðtali við Túrista haustið 2013 viðurkenndi norski forstjórinn að fall Sterling flugfélagsins, sem var í eigu Íslendinga, hefði gert Norwegian kleift að ná fótfestu í Danmörku. Hann sagðist þá ekki hafa mikla trú á Ameríkuflugi WOW air.

Önnur helstu tíðindi fundarins í morgun voru þau að hagnaðurinn af rekstri Norwegian, á öðrum ársfjórðungi, nam rúmum einum og hálfum milljarði íslenskra króna. Það er umtalsvert minni afgangur en á sama tíma í fyrra en þó umfram væntingar markaðarins. Ein af ástæðum lakari afkomu er sú staðreynd að kyrrsetning Boeing MAX þotanna hefur reynst Norwegian dýrkeypt. Félagið er í dag með þrettán þess háttar þotur í rekstri og hefur þurft að leigja aðrar flugvélar. Kostnaðurinn vegna þessa er metinn á tæpa sex milljarða króna á síðasta ársfjórðungi. Til samanburðar þá gerði Icelandair ráð fyrir að vera með sex MAX þotur í rekstri nú í sumar en stjórnendur þess hafa ekki gefið út nákvæmar tölur um hversu kostnaðarsamt það hefur verið fyrir félagið að leigja aðrar þotur og áhafnir í staðinn. Forsvarsfólk Norwegian gerir ráð fyrir að kostnaðurinn vegna MAX flugbannsins muni nærri því tvöfaldast það sem eftir lifir árs og verði rúmir 10 milljarðar króna.

Þrátt fyrir skort á flugvélum þá ætlar Norwegian að halda úti umtalsverðu Spánarflugi frá Íslandi í vetur. Þannig munu þotur félagsins fljúga fimm sinnum í viku til Tenerife, tvisvar til Las Palmas á Kanarí en einnig bjóða upp á áætlunarferðir til Alicante, Barcelona og Madríd.