Icelandair gæti átt von á milljarðabótum frá Boeing

Stjórnendur bandaríska flugframleiðandans Boeing reikna með að borga viðskiptavinum sínum samtals um 610 milljarða í bætur vegna þeirra skakkafalla sem þeir hafa orðið fyrir vegna kyrrsetningar á MAX þotunum.

Fjórar af þeim níu Boeing MAX þotum sem fljúga áttu með farþega Icelandair í sumar. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Nú er rúmir fjórir mánuðir liðnir frá því að allar þotur af gerðinni Boeing MAX voru kyrrsettar eftir tvö mannskæð flugslys. Stjórnendur Boeing vonast nú til þess að þoturnar komist í lofið á ný á síðasta fjórðungi ársins en kyrrsetningin hefur reynst eigendum þotanna kostnaðarsöm. Flugfélög hafa þurft að fella niður fjölda ferða og leigja aðrar þotur, jafnvel með áhöfnum, til að brúa bilið sem ónýttu MAX flugvélarnar hafa valdið.

Boeing ætlar að bæta það tjón að einhverju leyti því samkvæmt yfirlýsingu frá fyrirtækinu í gær segir að um 4,9 milljarðar dollara fari í greiðslu skaðabóta til flugfélaga vegna ástandsins. Það jafngildir um 610 milljörðum króna sem á segja má að nemi um milljarði króna á hverja MAX þotu sem nú hefur verið framleidd. Áður en kom að kyrrsetningunni í mars þá hafði Boeing nefnilega afhent nærri fjögur hundruð þotur en síðan var hægt á framleiðslunni. Engu að síður má gera ráð fyrir að hátt í eitt hundrað MAX þotur standa nú tilbúnar við verksmiðjur Boeing. Fleiri bætast svo við næstu mánuði en samtals hafa verið pantaðar um fimm þúsund MAX þotur.

Þar af á Icelandair pöntuð sextán eintök og gerði núverandi sumaráætlun félagsins gerði ráð fyrir sjö Boeing MAX8 þotum og tveimur MAX9. Miðað við þá upphæð sem Boeing gerir ráð fyrir að greiða vegna ástandsins eins og það er í dag þá má gera ráð fyrir að Icelandair fái nokkra milljarða króna í bætur vegna stöðunnar. Stjórnendur félagsins hafa þó lítið gefið upp um mat sitt á tjóninu en starfsbræður þeirra hjá Norwegian hafa verið opinskáir hvað þetta varðar. Í kynningu á afkomu félagsins á öðrum ársfjórðungi kom til  að mynda fram að matið vegna kyrrsetningar MAX þotanna hefði kostað félagið um sex milljarða á tímabilinu og að tala myndi hátt í tvöfaldast það sem eftir lifir árs. Norwegian hafði fengið þrettán Boeing MAX þotur afhentar þegar flugbannið var sett á.

Flugslysin tvö sem kyrrsetning MAX þotanna byggir á kostuðu 346 manns lífið. Flugvélaframleiðandinn gera ráð fyrir að greiða aðstandendum þeirra bætur upp á samtals 100 milljón dollara eða nærri 12 og hálfan milljarð króna.