Icelandair leigir MAX þoturnar

Allar þær Boeing MAX þotur sem skráðar hafa verið hér á landi eru í eigu erlendra fjármögnunarfyrirtækja.

Fjórar af þeim sex MAX þotum sem komnar eru til landsins og standa nú á Keflavíkurflugvelli. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Sex af þeim níu Boeing MAX þotum sem Icelandair gerði ráð fyrir að nota í sumar standa nú á Keflavíkurflugvelli en hinar þrjár eru við verksmiðjur Boeing í Bandaríkjunum. Ekki liggur fyrir hvenær þotur af þessari gerð fá að fara í loftið á ný en flugvélaframleiðandinn gerir ráð fyrir að greiða flugfélögum bætur sem samsvara samtals 610 milljörðum króna vegna ástandsins sem kyrrsetningin hefur valdið.

Í dag hafa um fimm hundruð þotur af þessari gerð verið framleiddar og skaðabæturnar nema því rúmum milljarði á hverja flugvél samkvæmt núverandi stöðu.

Icelandair pantaði allt að sextán Boeing MAX þotur árið 2012 en síðan þá hefur félagið selt en leigt á ný hluta af flugvélunum til níu til tólf ára samkvæmt kauphallartilkynningum félagsins. Þær sex MAX8 og MAX9 þotur sem núna eru komnar í loftfaraskrá Samgöngustofu eru til að mynda allar í eigu írskra og japanskra fjármögnunarfyrirtækja sem tengjast meðal annars dótturfélagi Bank of Communications í Kína. Icelandair er aðeins skráð sem umráðandi þessara sex MAX flugvéla. Eldri þotur félagsins, af gerðunum Boeing 757 og 767, eru aftur á móti flestar skráðar eign Airco ehf. sem er hluti af Icelandair Group.

Að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, þá hefur staða flugfélagsins sem leigutaka að MAX þotunum engin áhrif á mögulegar skaðabótagreiðslu frá Boeing.

Þrjár MAX þotur málaðar í litum Icelandair standa nú á Boeing Field við Seattle í Bandaríkjunum. MYND: SOUNDERBRUCE / CREATIVECOMMONS 4.0