Ísland helst inn á topplistanum í Kaupmannahöfn

Þrátt fyrir að færri fljúgi nú hingað frá dönsku höfuðborginni þá er flugleiðin ennþá ein af þeim tíu vinsælustu þar á bæ.

Frá Kaupmannahafnarflugvelli. Mynd: CPH

Íslandsflugið frá Kaupmannahöfn kemst ávallt á lista yfir tíu vinsælustu flugleiðirnar þaðan yfir sumarmánuðina. Á því varð ekki breyting í júní síðastliðnum þrátt fyrir að ríflega þrjú þúsund færri farþegar nýttu sér áætlunarferðirnar í samanburði við sama tíma í fyrra. Hlutfallslega nam samdrátturinn í júní fimm af hundraði sem er nokkru minni lækkun en búast hefði mátt við í kjölfar falls WOW air.

Lágfargjaldaflugfélagið stóð nefnilega fyrir fjórðu hverri áætlunarferð milli Íslands og Kaupmannahafnar í júní í fyrra samkvæmt talningum Túrista. Að þessu sinni fjölgaði Icelandair hins vegar ferðum sínum til Kaupmannahafnar um nærri þriðjung og eins bætti SAS við nokkrum ferðum. Þar með var samdrátturinn í júní mun minni en ella.

Á fyrri helmingi þessa ára hefur farþegum í Íslandsflugi frá Kaupmannahöfn fækkað um rétt rúm tíu prósent samkvæmt tölum danska flugvallarins. Isavia veitir þess háttar upplýsingar og kærði Túristi upplýsingaskortinn fyrir rúmum 14 mánuðum til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Niðurstaða í málinu liggur ennþá ekki fyrir.