Íslandsflugið vinsælt hjá Asíubúum

Finnska flugfélagið Finnair ætlar að bæta tveimur brottförum í viku til Íslands í vetur. Íslendingar áttu stóra hlut í félaginu fyrir um áratug síðan.

finnair a
Mynd: Finnair

Þotur finnska flugfélagsins Finnair hafa verið fastagestir á Keflavíkurflugvelli allt frá því að Íslandsflug félagsins hófst í apríl 2017. Upphaflega var ætlunin að bjóða aðeins upp á áætlunarferðir hingað frá vori og fram á haust en viðtökurnar voru það góðar að félagið bætti Íslandi strax við vetraráætlun sína. Og nú sjá Finnarnir tækifæri í ennþá tíðari brottförum því þeim verður fjölgað úr þremur í fimm í viku næstkomandi vetur. Þetta staðfestir talsmaður félagsins í svari til Túrista.

Þar kemur líka fram að áfram njóti Ísland mikilla vinsælda hjá asískum farþegum en Finnair er mjög stórtækt í flugi til Austurlanda fjær. Þannig fljúga þotur félagsins reglulega til sjö kínverskra borga auk nokkurra áfangastaða í Japan og Suður-Kóreu. Það kemur þeim íslenskum farþegum vel sem stefna á ferðalög til þessara landa. Sérstaklega þeim sem kjósa að ferðast á einum miða og vera þá á ábyrgð flugfélagsins ef seinkanir riðla ferðaplönum. Auk Finnair býður Icelandair upp á flug til Helsinki og vetraráætlun félagsins gerir ráð fyrir morgunferðum þangað alla daga vikunnar.

Það er finnska ríkið sem fer með meirihluta í Finnair en stuttu fyrir hrun var FL-Group næststærsti eigandinn með 22 prósent hlut. Þá settist þá Sigurður Helgason, fyrrum forstjóri Icelandair, í stjórn finnska flugfélagsins fyrir íslensku eigendurna. Þeir losuðu svo sinn hlut með töluverðu tapi vorið 2008. Þá var afkoma Finnair neikvæð en félagið hefur verið á siglingu síðustu ár og skilað góðum afgangi. Skrifast viðsnúningurinn oftar en ekki á hið umsvifamikla Asíuflug félagsins.