Kapphlaup um endurreisn WOW air

Tveir fjárfestahópar munu hafa augastað á að stofna nýtt flugfélag sem byggir á grunni WOW air. Enn er þó margt á huldu um áformin og hverjir standa að baki.

Mynd: London Stansted

Strax í kjölfar gjaldþrots WOW air viðruðu nokkrir einstaklingar hugmyndir um að stofna nýtt flugfélag sem byggði á grunni WOW air. Einn þeirra var Skúli Mogensen, fyrrum eigandi WOW og forstjóri, en ekkert varð af þessum tilraunum. Í sumarbyrjun steig Skúli fram aftur og lýsti því í erindi á ráðstefnu í Hörpu hvernig koma mætti WOW air í loftið á ný.

Síðan þá hefur ekkert spurst af þreifingum um stofnun nýs lággjaldaflugfélags þar til í fyrradag þegar Fréttablaðið sagði frá írsku fjárfestingafélagi sem ætlaði í samstarfi við fjóra Íslendinga, þar af tvo af fyrrum stjórnendum WOW air, að setja á laggirnir flugfélag sem byggði á viðskiptaplani WOW air. Skiptastjóri WOW air staðfesti við Vísi að þessi hópur hefði sýnt eignum þrotabúsins áhuga en þá hafði þegar verið búið að selja það verðmætasta út úr búinu.

Fréttablaðið greinir svo frá því í dag að kaupendurnir hafi verið bandarískir flugrekendur sem borgað hafi hundruðir milljóna fyrir vörumerki WOW air, WOW lénin, flugrekstrarbækur, bókunarkerfi, hugbúnað, einkennisfatnað og stóran hluta af varahlutalager. Tilgangurinn með viðskiptunum mun vera að endurvekja flugrekstur til og frá landinu bæði til Evrópu og Bandaríkjanna á grunni WOW air og í samræmi við þá hugmyndafræði sem lá til grundvallar lággjaldaflugi WOW air samkvæmt því sem segir í blaðinu.

Páll Ágúst Ólafsson lögmaður hefur haft milligöngu um samskipti kaupendanna við þrotabúið staðfestir að þeir hafi engin tengsl við fyrrnefnda hópinn sem jafnframt vinnur að stofnun lággjaldaflugfélags. Skúli Mogensen hefur staðfest að hann tengist þeim hópi ekki heldur en ekki liggur fyrir hvort hann tilheyri hópnum sem nú hefur keypt eignir úr þrotabúi WOW. Á sama hátt liggur ekki fyrir hvort Indigo Partners hafi sýnt eignum WOW air áhuga en þetta bandaríska fjárfestingafélag skoðaði kaup á WOW air í um fjögurra mánaða skeið síðastliðinn vetur.