Lítilsháttar samdráttur í hótelbókunum fyrir haustið

Tölur frá hótelbókunarfyrirtækinu Booking.com sýna að fjöldi bókana á gistingu hér á landi í september fram til nóvember er minni en á sama tíma.

Skjámynd: Booking

Í haust munu um 132 þúsund færri ferðamenn heimsækja Ísland í samanburði við september, október og nóvember í fyrra samkvæmt farþegaspá Isavia. Ef þetta gengur eftir þá mun samdrátturinn þessar þrjá mánuði nema ríflega fjórðungi. Svona mikil niðursveifla er þó ennþá ekki sjáanleg í gögnum hótelbókunarsíðunnar Booking.com sem er mjög umsvifamikil hér á landi sem víðar. Í svari fyrirtækisins, við fyrirspurn Túrista, kemur fram að í fjöldi hótelbókanna á Íslandi í haust hafi lækkað lítilsháttar í samanburði við sama tímabil í fyrra. „Það mun þó mjög líklega breytast því áfram er Ísland vinsæll áfangastaður hjá viðskiptavinum okkar,“ segir í jafnframt í svarinu.

Hversu góða mynd bókunarstaðan hjá Booking.com gefur af ástandinu á íslenska gistimarkaðnum er ekki hægt að fullyrða um. En samkvæmt mati Ferðamálastofu, sem birt var í fyrra, þá var Booking.com með um helmings hlutdeild á sínum markaði hér á landi. Var þá litið til umsvifa netbókunarsíðna sem miðla gistingu gegn þóknun.

Hafa ber í huga að síðustu mánuði hefur gistinóttum útlendinga hlutfallslega fækkað nokkru minna en sem nemur samdrætti í fjölda ferðamanna sem fara um Keflavíkurflugvöll. Hluti af skýringunni á því liggur líklega í fækkun svokallaðra sjálftengifarþega sem skekkt hafa talningu ferðamanna við vopnaleitina í Leifsstöð. Nýbirtar tölur Hagstofunnar yfir gistinætur í maí gefa til að mynda til kynna að dvalartími útlendinga hér á landi hefur lengst og er nú í takt við það sem hann var á sama tíma árin 2012 til 2016.