Norwegian sker niður

Sparnaðaráætlun stjórnenda Norwegian gerir ráð fyrir samdrætti í Norður-Atlantshafsflugi. Þar með dregur úr framboði á nokkrum af þeim flugleiðum sem Icelandair gerir út á.

Mynd: Norwegian

Þrátt fyrir að Spánarflug Norwegian frá Íslandi muni aukast verulega í vetur þá ætlar félagið að draga saman seglin í áætlunarferðum milli Bandaríkjanna og Evrópu í vetur. Tíu flugleiðir á milli álfanna verða felldar niður nú í haust og þráðurinn ekki tekinn upp á ný fyrr en í vor. Til viðbótar hættir félagið endanlega að fljúga milli Stokkhólms og Orlando og hins vegar London og Las Vegas.

Þessi samdráttur í Atlantshafsflugi Norwegian ætti að draga þónokkuð úr framboði á mörgum af þeim flugleiðum sem Icelandair sinnir. Til að mynda í flugi frá Evrópu til Boston, Chicago, Denver, Orlando og New York en allar þessar borgir eru hluti af vetraráætlun Icelandair.

Auk þess þá fækkar Norwegian ferðunum til Los Angeles og mun ekki fljúga þangað beint frá Ósló eða Kaupmannahöfn í vetur. WOW air sinnti einnig flugi til Los Angeles og ljós að með brotthvarfi þess félags og samdrættinu hjá Norwegian þá snarminnkar framboðið í vetur á flugsætum milli Norðurlandanna og fjölmennustu borgar Kaliforníu.

Hvort þetta verði til þess að stjórnendur Icelandair stökkvi til og bæti borginni við sína vetraráætlun á eftir að koma í ljós. WOW air flutti til að 69 þúsund farþega milli Keflavíkurflugvallar og Los Angeles á fyrri helmingi síðasta árs.