Óljóst með greiðslur til þrotabús WOW

Kaup Michele Ballarin á eignum úr þrotabúi WOW eru ekki frágengin samkvæmt því sem fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Skiptastjóri þrótabúsins sagði hins vegar að uppsett kaupverð hefði verið greitt. Í viðtali við viðskiptakálf Morgunblaðsins lýsir hún áformum sínum um endurreisn lággjaldafélagsins. Segja má að viðtalið skilji eftir sig fleiri spurningar en svör.

Mynd: Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

Sá hópur fjárfesta sem gert hefur tilboð í eignir úr þrotabúi WOW air hyggst setja allt að 100 milljónir dollara í endurreisn flugfélagsins. Það jafngildir nærri 13 milljörðum króna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali Morgunblaðsins við Michele Ballarin sem fer fyrir hópnum. Athygli vekur að í upphafi viðtalsins er fullyrt að enn hafi greiðsla fyrir flugrekstrareignir úr þrotabúi WOW air ekki verið innt af hendi. Ballarin er þó ekki spurð út í þetta atriði. Áður hefur Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús WOW air, sagt kaupverðið vera greitt. Þetta kom fram í frétt Fréttablaðsins í síðustu viku. Túristi hefur leitað skýringa hjá Sveini Andra á þessu misræmi en ekki hafa fengist svör.

Burt séð frá þessu vegamikla atriði þá segir Ballarin, í viðtali við Morgunblaðið, að hún og bandarískir meðfjárfestar hennar hafi ýmis konar reynslu á sviði flugrekstrar, til að mynda á fraktflutningum og viðhaldi farþegaþota. Í takt við evrópskar reglur munu Bandaríkjamennirnir þó aðeins fara með 49 prósent hlut í WOW air og meirihlutinn því í eigu íslensks fyrirtækis. Ekki er farið nánar út í mögulegt eignarhald á þessu fyrirtæki eða hvaða íslensku eða evrópsku aðilar munu fara með hlutinn í því og hver reynsla þeirra er af flugrekstri.

Ballarin segist hafa hrifist af WOW air á sínum tíma og telur mikilvægt að endurreisa félagið sem fyrst. Máli sínu til stuðnings heldur hún því fram að íslenska krónan hafi fallið um allt að þrjátíu prósent vegna rekstrarstöðvunar flugfélagins. Einnig segir hún keppikefli að koma flugsamgöngum til Bandaríkjanna „strax í gang“. Í hvaða veruleika Ballerin er að vísa er erfitt að segja því þó krónan hafi lækkað um 15 prósent, í dollurum talið, síðastliðið ár þá er gengi hennar það sama í dag og það var fyrir þremur árum síðan þegar WOW skilaði methagnaði. Gengið hefur aðeins veikst lítillega frá gjaldþroti WOW.

Og þó flugsamgöngur milli Íslands og Bandaríkjanna hafa dregist verulega saman eftir fall WOW þá eru ferðir milli landanna tveggja mjög tíðar í samanburði við Ameríkuflug frá hinum Norðurlöndunum. Hingað fljúga þrjú stærstu flugfélög Bandaríkjanna og Icelandair heldur úti áætlunarflugi til fjórtán bandarískra flugvalla nú í sumar. Þar á meðal til Washington Dulles en Ballarin segir stefnt að því að endurreist WOW verði með starfsstöð á þeirri flugstöð.

Hún fer þó ekki nánar út í það hvort ætlunin sé þá að ráða bandarískar áhafnir líkt og Norwegian hefur gert á starfstöð sinni í New York eða hvort flogið verði til fleiri áfangastaða en bara til Íslands. Frá New York flýgur Norwegian til nokkurra evrópskra áfangastaða enda varla grundvöllur fyrir sérstakri starfsstöð sem aðeins á að sinna Íslandsflugi. Endurreisn WOW virðist þó líka byggja á aukinni áherslu á fraktflutninga opnun starfstöðvar í nágrenni við bandarísku höfuðborgina gæti verið hluti af þeirri áætlun.

Sem fyrr segir liggur ekki fyrir hvort bandarískir flugliðar verði ráðnir á mögulega starfsstöð WOW á Dulles flugvelli. En ljóst er að Ballarin telur kostnaðinn við að flytja áhafnir frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar of háan. „Við ætlum ekki að flytja áhafnir til og frá Reykjavík. Ef það kostar hundruð þúsunda dala á mánuði að ferja starfsfólk þannig fram og til baka þá eru það samtals milljónir dollara á ári. Slíkur kostnaður er of mikil byrði.“

Ballarin segir að þrjár vélar verði í flota hins endurreista WOW air til að byrja með. „Þetta verða Airbus A321 NEO. Svo ætlum við að stækka flotann upp í 10-12 vélar innan 24 mánaða. Við tökum svo stöðuna eftir það.“ Það kemur ekki fram í viðtalinu til hvaða áfangastaða horft er til í upphafi nema þá Washington Dulles. En miðað við að félagið ætli aðeins að reka þrjár þotur í upphafi þá verður leiðakerfið lítið og býður svo takmarkaður flugfloti varla upp á tengiflug milli Evrópu og Ameríku.

Þrátt fyrir aðdáun sína á WOW air á sínum tíma þá er ljóst að Ballarin hefur ekki verið ánægð hvernig stjórnendur þess takmörkuðu stærð á handfarangri. „Það getur verið mjög pirrandi og jafnvel vandræðalegt að þurfa að umpakka töskunum þínum, strax við innritunarborðið. Þannig byrjar ferðin strax á slæmum nótum. Þarna byrjar í raun kvörtunarferlið,“ segir Ballarin.

Það er margt fleira athyglisvert sem fram kemur í viðtali Morgunblaðsins við Ballarin. Hún rekur þar kynni sín af Skúla Mogensen, fer yfir viðburðaríka sögu sína í viðskiptum og líkir íslenska húsnæðislánakerfinu við það sem þekkist í Afríku. Eins fer upphafskona endurreisnar WOW air fögrum orðum um Donald Trump forseta Bandaríkjanna og lýsir trúariðkun sinni. Þess má geta að Páll Ásgeir Ólafsson, lögmaður Ballarin hér á landi, er guðfræðingur og hefur starfað sem prestur.