Óskalisti fyrir utanlandsferðina

Þeir sem eiga leið um Flugstöð Leifs Eiríkssonar á næstunni geta nú séð vöruúrvalið á einum stað og hvaða tilboð eru í boði.

Mynd: Isavia

Flugfélögin mæla almennt með að farþegar mæti tímanlegan í flugið og þeir sem fylgja þeim ráðum verja þá klukkutíma til tveimur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir brottför. Þann tíma nýta margir til að versla eða fá sér í svanginn. Og nú er að finna á heimasíðu Keflavíkurflugallar upplýsingar um öll þau tilboð sem í boði eru hjá þeim verslunum og matsölustöðum sem í flugstöðinni eru. Hægt er að setja þau saman í lista og prenta út eða fá þau send í símann.

„Við erum fyrst og fremst að gera þetta til að vekja athygli á því fjölbreytta vöruúrvali þjónustuaðila sem er í flugstöðinni,“ segir Gunnar K. Sigurðsson, markaðsstjóri Isavia, um framtakið. Hann bætir því við að í sumar séu sumir rekstraraðilar í flugstöðinni með tilboð til að mynda fyrir fjölskyldur eða á vörum sem henti vel fyrir ferðalagið.

Vöruúrvalið í flugstöðinni má finna á heimasíðu Keflavíkurflugvallar og hægt er að flokka vörurnar og veitingarnar eftir tegundum.