Skoða þrjú flug í viku milli Íslands og Kína með milli­lend­ingu í Hels­inki

Kínverska flugfélagið Tianjin hefur sótt um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli í vetur.

Almennt farrými í Airbus A330 breiðþotu Tijanjin Airlines. Mynd: Tianjin Airlines

Ef frá er talið skamm­líft áætl­un­ar­flug WOW air til Nýju Delí á Indlandi þá hefur reglu­legt flug héðan til Asíu ekki verið á boðstólum. Á því kann að verða breyting því samkvæmt traustum heim­ildum Túrista þá hefur kínverska flug­fé­lagið Tinajin Airlines sótt um þrjá afgreiðslu­tíma í viku hverri á Kefla­vík­ur­flug­velli fyrir komandi vetur. Um er að ræða heldur óvenju­legar flug­ferðir því umsóknin gerir ráð fyrir flugi frá kínversku borg­inni Wuhan til Hels­inki og þaðan rakleiðis til Íslands. Wuhan borg er í miðhluta Kína og þar búa hátt í 11 millj­ónir manna.

Þó Tianjin Airlines fái afgreiðslu­tímana sem félagið hefur óskað eftir, í Hels­inki, Wuhan og á Kefla­vík­ur­flug­velli, þá er ekki í hendi að þetta óbeina Íslands­flugi verði að veru­leika. Á heima­síðu kínverska flug­fé­lagsins er til að mynda ekki hægt að bóka flug til Íslands eins og staðan er í dag. Stjórn­endur Tianjin Airlines hafa hins vegar verið að horfa til áætl­un­ar­flugs lengra úti heim og flug til Finn­lands og Íslands gæti verið hluti af þeirri útrás.

Líkt og Túristi greindi frá í gær þá gerir vetr­aráætlun Finnair ráð fyrir fleiri ferðum til Íslands í vetur sem skrifast meðal annars á aukna eftir­spurn eftir Íslands­ferðum í Asíu.