Skoða þrjú flug í viku milli Íslands og Kína með millilendingu í Helsinki

Kínverska flugfélagið Tianjin hefur sótt um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli í vetur.

Almennt farrými í Airbus A330 breiðþotu Tijanjin Airlines. Mynd: Tianjin Airlines

Ef frá er talið skammlíft áætlunarflug WOW air til Nýju Delí á Indlandi þá hefur reglulegt flug héðan til Asíu ekki verið á boðstólum. Á því kann að verða breyting því samkvæmt traustum heimildum Túrista þá hefur kínverska flugfélagið Tinajin Airlines sótt um þrjá afgreiðslutíma í viku hverri á Keflavíkurflugvelli fyrir komandi vetur. Um er að ræða heldur óvenjulegar flugferðir því umsóknin gerir ráð fyrir flugi frá kínversku borginni Wuhan til Helsinki og þaðan rakleiðis til Íslands. Wuhan borg er í miðhluta Kína og þar búa hátt í 11 milljónir manna.

Þó Tianjin Airlines fái afgreiðslutímana sem félagið hefur óskað eftir, í Helsinki, Wuhan og á Keflavíkurflugvelli, þá er ekki í hendi að þetta óbeina Íslandsflugi verði að veruleika. Á heimasíðu kínverska flugfélagsins er til að mynda ekki hægt að bóka flug til Íslands eins og staðan er í dag. Stjórnendur Tianjin Airlines hafa hins vegar verið að horfa til áætlunarflugs lengra úti heim og flug til Finnlands og Íslands gæti verið hluti af þeirri útrás.

Líkt og Túristi greindi frá í gær þá gerir vetraráætlun Finnair ráð fyrir fleiri ferðum til Íslands í vetur sem skrifast meðal annars á aukna eftirspurn eftir Íslandsferðum í Asíu.