Skortur á Airbus þotum gæti sett strik í reikninginn

Endurreisn WOW air sem byggir á flugrekstrarleyfi flugfélagsins kallar á að nýtt félag noti samskonar þotur. Í dag er hins vegar umfram eftirspurn eftir þess háttar flugvélum. Hvorki Skúli Mogensen né aðrir úr framkvæmdastjórn WOW air koma að kaupum á eignum úr þrotabúi flugfélagsins.

Mynd: London Stansted

WOW air var skilgreint sem kerfislega mikilvægt fyrirtæki af stjórnvöldum og nú liggur fyrir að bandarískur flugrekandi hefur keypt „verðmætustu“ eignirnar úr þrotabúi þess. Það hefur þó ekki fengist staðfest hvort ónefndi flugrekandinn er Oasis Aviation Group, líkt og Viðskiptablaðið fullyrti, enda hefur Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður kaupendanna, varist allra frétta af málinu.

Flugrekstrarbækur WOW air eru hluti af þeim eignum sem kaupandinn fékk úr þrotabúinu samkvæmt frétt Fréttablaðsins. Ef ætlunin er að nýta þau gögn til að sækja um íslenskt flugrekstrarleyfi þá mun hið endureista WOW air þurfa Airbus þotur af sömu tegund og forverinn var með í rekstri. Viðmælendur Túrista, sem vel þekkja til, eru hins vegar sammála um að eins og staðan er í dag þá gæti það orðið mjög snúið að finna lausar Airbus A321 þotur til rekstursins. Þess háttar flugvélar eru einnig nauðsynlegar ef ætlunin er að styðjast við leiðakerfi WOW air og fljúga til áfangastaða bæði í Norður-Ameríku og Evrópu. Ástæðan fyrir skorti á Airbus þotum er sú umfram eftirspurnin sem Boeing MAX krísan hefur valdið. Af þessum sökum gæti það dregist að koma WOW air í loftið á ný nema nýir eigendur eigi nú þegar Airbus þotur eða hafi nú þegar vilyrði fyrir leigusamningum.

Í samtali við Túrista í dag ítrekaði Páll Ágúst, lögmaður kaupendans, það sem hann hefur áður sagt að umbjóðandi hans undirbúi nú nauðsynlega fundi með Samgöngustofu og Isavia. Í framhaldinu er ætlunin að kaupandinn kynna áformin opinberlega en ekki liggur fyrir hvenær það verður. Marmiðið er að vinna málið eins hratt og vel og mögulegt er að sögn Páls Ágústs. Hann segist hafa fullan skilning á því að margir séu spenntir fyrir nánari upplýsingum um stöðuna.

Evrópskar reglur kveða á um að lögaðilar innan EES-svæðisins verði að fara með meirihluta í íslenskum og evrópskum flugfélögum en sem fyrr segir kemur bandarískur flugrekandi að kaupunum á eignum WOW air. Í kringum þær reglur má hins vegar komast líkt og Indigo Partners hefur gert og áður hefur verið fjalla um. Engar upplýsingar fást frá Páli Ágústi um hvort nýr eigandi vörumerkis WOW air sé í samstarfi við evrópska eða íslenska fjárfesta varðandi endurreisn WOW air. Lögmaðurinn staðfestir að hvorki Skúli Mogensen né aðrir úr fyrrum framkvæmastjórn WOW komi að verkefninu.

Í dag rennur út fresturinn sem flugfélög hafa til að staðfesta afgreiðslutíma á flugvöllum fyrir komandi vetraráætlun. Ekki liggur fyrir hvort aðstandendur hins nýja WOW air hafi sótt um komu- og brottfarartíma fyrir veturinn fyrir flug til Íslands frá Bandaríkjunum og þá út á bandarískt flugrekstrarleyfi sitt. Isavia mun ekki fyrr en í september gefa upp hvaða flugfélög sóttu um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli í vetur samkvæmt svari fyrirtækisins við fyrirspurn Túrista.