Söluferli á ferðaskrifstofum hafið

Arion banki er opinn fyrir viðræðum um sölu á ferðaskrifstofunum sjö sem bankinn tók nýverið yfir. Reksturinn skilaði þriggja milljarða tapi í fyrra.

Mynd: Nicolas J Leclercq / Unsplash

Arion banki tók yfir hið norræna ferðaþjónustuveldi Andra Más Ingólfssonar í sumarbyrjun. Við breytinguna var rekstur íslensku ferðaskrifstofanna Heimsferða og Terra Nova færður úr dönsku móðurfélagi yfir í íslenskt fyrirtæki. Í heildina eru ferðaskrifstofurnar sjö talsins og það er yfirlýst markmið Arion banka að selja þær allar sem fyrst. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum þá er söluferlið komið af stað.

„Við erum eðlilega snemma í ferlinu núna en getum sagt að bankinn sé á þessu stigi opinn fyrir möguleikum og umræðum á að selja starfsemina bæði í heilu lagi eða minni einingum,“ segir í svari frá Arion banka. Þar kemur jafnframt fram að mögulega verði frekari upplýsingar veittar um stöðuna þegar Arion birtir uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung í þarnæstu viku.

Þriggja milljarða króna tap var á rekstri danska móðurfélagsins í fyrra en í tilkynningu sem Arion banki birti, þegar tilkynnt var um yfirtökuna í byrjun júní, kom fram að rekstur íslensku ferðaskrifstofanna gengi vel. Ekki liggur þó fyrir hvort borist hafa tilboð í þær en Heimsferðir hafa lengi verið ein af þremur umsvifamestu ferðaskrifstofum landsins sem sérhæfa sig í sölu á utanlandsferðum fyrir Íslendinga. Terra Nova er aftur á móti stórtæk í skipulagningu á Íslandsferðum. Stærsta ferðaskrifstofan á því sviði, Iceland Travel, sem er í eigu Icelandair er líka til sölu þó söluferlið sé ekki formlega hafið.

Sameining á Terra Nova og Iceland Travel hefur verið nefnd sem álitlegur kostur í ljósi stöðunnar en samkvæmt viðmælendum Túrista er óvíst hvort Samkeppniseftirlitið myndi heimila þess háttar samruna. Á sama hátt er gæti eftirlitið komið í veg fyrir kaup annarra ferðaskrifstofa á Heimsferðum þar sem hún er ein af þremur stærstu ferðaskrifstofunum á sínu sviði. Hinar eru Ferðaskrifstofa Íslands, sem rekur m.a. Úrval-Útsýn, og hins vegar Vita sem er í eigu Icelandair Group. Vita hefur verið rekin sem hluti af Iceland Travel en nú stendur til að selja út úr Icelandair samsteypunni. Þó ber að hafa í huga að ferðaskrifstofur eru í mikilli samkeppni við áætlunarferðir flugfélaga.