Taka við Íslandsferðum frá Mið-Englandi

Um leið og TUI hætti með vetrarferðir hingað frá East Midlands flugvelli þá bætti Jet2Holidays við brottförum þaðan.

Vetrarferðir til Reykjavíkur eru nú á boðstólum frá fjölda breskra flugvalla á vegum tveggja af stærstu ferðaskrifstofum landsins. Mynd: Visit Reykjavik / Raggi Th Sigurdsson

Nærri fimmtíu þúsund farþegar nýttu sér hinar tíðu flugferðir sem í boði voru milli Íslands og ensku borgarinnar Bristol árið 2016. Árið eftir hætti WOW air hins vegar fljúga þangað og easyJet fækkaði ferðunum þaðan til Íslands. Þetta hafði þær afleiðingar að rétt tæplega tuttugu þúsund farþegar flugu milli Íslands og Bristol í fyrra. Í byrjun næsta árs batna samgöngurnar á ný því þá ætlar breska ferðaskrifstofan TUI að bjóða Íslandsferðir frá Bristol og farnar verða tvær ferðir í viku í janúar, febrúar og mars.

Á móti kemur að næsta vetur verða engar pakkaferðir til Íslands í boði hjá TUI með brottför frá East Midlands flugvellinum. Þaðan flutti félagið til að mynda um 250 breska ferðamenn til Íslands í síðastliðnum mars samkvæmt tölum breskra flugmálayfirvalda. Stuttu eftir að TUI tilkynnti um þessar breytingar þá stukku stjórnendur ferðaskrifstofunnar Jet2Holidays til og bættu við nokkrum ferðum hingað frá East Midlands í nóvember næstkomandi og í mars. Þar með mun Jet2Holidays hafa á boðstólum ferðir til Íslands frá sjö breskum flugvöllum í vetur en fyrsta ferð Jet2 hingað til lands var í byrjun þessa árs.

Hvorki TUI né Jet2Holidays selja flugsæti í Íslandsflug sitt hér á landi því farþegar þeirra verða að byrja ferðalagið í Bretlandi.