Talan sem Icelandair mun ósennilega gefa út í dag

Í ljósi þess að helsti keppinauturinn er nú farinn af markaðnum má gera ráð fyrir að meðalfargjöldin hjá Icelandair hafi hækkað. Stjórnendur þess eru þó ekki gjarnir á að deila þess háttar upplýsingum.

Mynd: Icelandair

Hjá tveimur stærstu flugfélögum Norðulanda þá hækkaði meðalfargjaldið í júní töluvert. Þannig hækkuðu farþegatekjur Norwegian, á hvern floginn kílómetra, um níu prósent á meðan hækkunin nam rúmum sjö prósentum hjá SAS í samanburði við júní í fyrra. Þessi verðþróun er þvert á spár forsvarsmanna flugfélaganna Ryanair og Lufthansa sem gáfu út í vor að þeir gerðu ekki ráð fyrir hækkandi fargjöldum í Evrópu í sumar vegna mikils framboðs á áætlunarflugi. Raunin varð hins vegar önnur, alla vega þegar horft er til Skandinavíu í júní.

Hvernig fargjöld Icelandair hafa þróast nú í sumar fáum við hins vegar ekki svar við í dag þegar fyrirtækið birtir sínar mánaðarlegu farþegatölur. Því öfugt við stjórnendur SAS og Norwegian þá deila stjórnendur Icelandair ekki reglulega upplýsingum um fargjaldaþróun. Í þeim mánaðarlegum flutningatölum sem félagið gefur út, og eru væntanlegar í dag, er aðeins að finna tölur um sætanýtingu og þróun framboðs en ekkert um hvort meðalfargjaldið hafi hækkað, lækkað eða staðið í stað.

Í ljósi þess að WOW air, helsti keppinauturinn í flugi til og frá landinu, er nú horfinn af sviðinu þá má fastlega gera ráð fyrir því að meðalfargjöld Icelandair hafi hækkað en ekki lækkað í júní. Jafnvel meira en sem nemur hækkuninni hjá Norwegian og SAS sem vissulega áttu líka í samkeppni við WOW air um farþega á ferðinni milli Evrópu og N-Ameríku.

Á sama tíma hljóta margir fjárfestar og eigendur Icelandair að vilja sjá hvort sú stefna stjórnenda að leggja aukna áherslu á Ísland sem áfangastað, í stað þess að gera helst út á tengifarþega á leið yfir hafið, hafi gefið góða raun. Farþegatölur Icelandair fyrir undanfarna mánuði hafa nefnilega sýnt að vægi erlendra ferðamanna, á leið til Íslands, hefur hækkað verulega í þotum félagsins á kostnað tengifarþega. Hvort þessi breyting skili Icelandair hærri tekjum á hvern farþega vita þó bara stjórnendur flugfélagsins. Og í ljósi ástandsins á MAX þotunum og þeirrar staðreyndar að Icelandair hefur þurft að leigja flugvélar og áhafnir til að brúa bilið þá væru hærri fargjöld væntanlega vel þegin til að standa undir auknum kostnaði.