Talan sem Icelandair mun ósenni­lega gefa út í dag

Í ljósi þess að helsti keppinauturinn er nú farinn af markaðnum má gera ráð fyrir að meðalfargjöldin hjá Icelandair hafi hækkað. Stjórnendur þess eru þó ekki gjarnir á að deila þess háttar upplýsingum.

Mynd: Icelandair

Hjá tveimur stærstu flug­fé­lögum Norðulanda þá hækkaði meðal­far­gjaldið í júní tölu­vert. Þannig hækkuðu farþega­tekjur Norwegian, á hvern floginn kíló­metra, um níu prósent á meðan hækk­unin nam rúmum sjö prósentum hjá SAS í saman­burði við júní í fyrra. Þessi verð­þróun er þvert á spár forsvars­manna flug­fé­lag­anna Ryanair og Luft­hansa sem gáfu út í vor að þeir gerðu ekki ráð fyrir hækk­andi fargjöldum í Evrópu í sumar vegna mikils fram­boðs á áætl­un­ar­flugi. Raunin varð hins vegar önnur, alla vega þegar horft er til Skandi­navíu í júní.

Hvernig fargjöld Icelandair hafa þróast nú í sumar fáum við hins vegar ekki svar við í dag þegar fyrir­tækið birtir sínar mánað­ar­legu farþega­tölur. Því öfugt við stjórn­endur SAS og Norwegian þá deila stjórn­endur Icelandair ekki reglu­lega upplýs­ingum um fargjalda­þróun. Í þeim mánað­ar­legum flutn­inga­tölum sem félagið gefur út, og eru vænt­an­legar í dag, er aðeins að finna tölur um sæta­nýt­ingu og þróun fram­boðs en ekkert um hvort meðal­far­gjaldið hafi hækkað, lækkað eða staðið í stað.

Í ljósi þess að WOW air, helsti keppi­naut­urinn í flugi til og frá landinu, er nú horfinn af sviðinu þá má fast­lega gera ráð fyrir því að meðal­far­gjöld Icelandair hafi hækkað en ekki lækkað í júní. Jafnvel meira en sem nemur hækk­un­inni hjá Norwegian og SAS sem vissu­lega áttu líka í samkeppni við WOW air um farþega á ferð­inni milli Evrópu og N‑Ameríku.

Á sama tíma hljóta margir fjár­festar og eigendur Icelandair að vilja sjá hvort sú stefna stjórn­enda að leggja aukna áherslu á Ísland sem áfanga­stað, í stað þess að gera helst út á tengifar­þega á leið yfir hafið, hafi gefið góða raun. Farþega­tölur Icelandair fyrir undan­farna mánuði hafa nefni­lega sýnt að vægi erlendra ferða­manna, á leið til Íslands, hefur hækkað veru­lega í þotum félagsins á kostnað tengifar­þega. Hvort þessi breyting skili Icelandair hærri tekjum á hvern farþega vita þó bara stjórn­endur flug­fé­lagsins. Og í ljósi ástandsins á MAX þotunum og þeirrar stað­reyndar að Icelandair hefur þurft að leigja flug­vélar og áhafnir til að brúa bilið þá væru hærri fargjöld vænt­an­lega vel þegin til að standa undir auknum kostnaði.