Það var góður stígandi hjá WOW í Lyon

Næst fjölmennasta borg Frakklands var hluti af sumaráætlun WOW air frá upphafi. Félagið flutti þrefalt fleiri farþega þaðan í fyrra en sumarið 2015.

Sé yfir gamla bæinn í Lyon. Myn: Visit Lyon/Krom Galerie

Frakklandsflug Icelandair hefur ávallt einskorðast við París á meðan þotur WOW air héldu bæði til höfuðborgarinnar og Lyon. Flugið til þessarar næst fjölmennustu borgar Frakklands var þó aðeins boði yfir sumarmánuðina þrjá en stundum fram á haustið. Í fyrra hélt WOW air flugleiðinni úti frá sumarbyrjun og fram í október og þá nýttu 18.858 farþegar sér Íslandsflugið samkvæmt upplýsingum frá flugvelli borgarinnar. Til samanburðar voru farþegarnir rúmlega sex þúsund sumrin 2014 og 2015 eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

WOW air nýtti 178 sæta Airbus A320 þotur í flugið til Lyon og að jafnaði var sætanýtingin 82 prósent í fyrra sem var hærra hlutfall en sumrin á undan. Frakkar voru í meirihluta í þessum ferðum og sú staðreynd að ekkert annað flugfélag tók við kefli WOW í Lyon kann að skýra að hluta til þá staðreynd að nærri fjórtán hundruð færri franskir ferðamenn voru hér á landi í júní.

Vissulega munar líka um samdrátt í Parísarflugi því samkvæmt talningu Túrista þá fækkaði áætlunarferðunum þaðan um þrjátíu og sjö í júní eða um rúmlega fjórðung. Frá Lyon fór WOW ellefu ferðir í júní í fyrra og gera má ráð fyrir að 650 til 800 franskir ferðamenn hafi þá verið um borð þegar horft er til sætanýtingar og hlutfalls tengifarþega hjá WOW. Allt síðasta sumar hafa þá komið hingað að lágmarki þrjú þúsund franskir ferðamenn í beinu flugi frá Lyon.

Til viðbótar við flugið til Parísar og Lyon þá spreytti WOW air sig á ferðum til Nice á suðurströnd Frakklands sumarið 2016. Félagið tók hins vegar ekki upp þráðinn vorið eftir. Sem fyrr segir hefur Icelandair haldið sig við flug til Parísar en félagið flýgur aftur á móti til Genfar á sumrin en sú borg er á landamærum Frakklands og Sviss og um 150 kílómetrum frá Lyon.