Þotan með stysta skuldahalann sat eftir á Keflavíkurflugvelli

Ef TF-GMA hefði verið skilin eftir við Leifsstöð þann 27.mars í stað TF-GPA þá hefði Isavia fengið í það minnsta þrjátíu milljónum króna meira frá ALC flugvélaleigunni.

Vinnutæki Keflavíkurflugvallar umkringdu TF-GPA á meðan þotan var í haldi Isavia. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Það kvarnaðist úr flugflota WOW air vikurnar fyrir fall þess og daginn fyrir gjaldþrotið sjálft var félagið með átta flugvélar leiguvélar á sínum snærum. Sjö þeirri héldu af stað í síðastu áætlunarferðir WOW air um kaffileytið þann 27.mars. Ein þota var því eftir sem var í takt við samkomulag flugfélagsins og Isavia þess efnis að alltaf væri ein þota við Leifsstöð sem trygging fyrir rúmlega tveggja milljarða skuld WOW air á Keflavíkurflugvelli. Sú þota sem skilin var eftir sem trygging var TF-GPA sem flaug af landi brott í gær eftir dóm Héraðsdóms Reykjaness.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Isavia gæti ekki farið fram á að ALC, eigandi þotunnar, gerði upp öll ógreidd notendagjöld WOW air á Keflavíkurflugvelli heldur aðeins þann hluta sem tengdust þessari tilteknu flugvél. Að mati sérfræðinga ALC var sú upphæð 87 milljónir króna og hefur hún verið greidd til Isavia.

Ef einhver af hinum þotunum sjö hefði verið skilin eftir miðvikudaginn 27. mars þá má áætla að Isavia hefði innheimt að minnsta kosti þriðjungi hærri upphæð eða um 120 milljónir króna. Ástæðan er sú að TF-GPA var í leiguverkefnum í Karabíska hafinu frá byrjun desember og fram í enda mars. Á þessu nærri fjögurra mánaða tímabili söfnuðust þar með ekki upp ógreidd gjöld vegna flugvélarinnar á Keflavíkurflugvelli á meðan flugvélin TF-GMA, af sömu gerð og einnig í eigu ALC, flaug 367 ferðir til og frá landinu á þessu tímabili samkvæmt gögnum af Flightradar heimasíðunni. Ferðafjöldinn var álíka hjá hinum þotunum sex sem voru í flota WOW air undir það síðasta.

Sú staðreynd að TF-GPA var skilin eftir, sem trygging á Keflavíkurflugvelli, en ekki TF-CAT, TF-DOG, TF-DTR, TF-SKY, TF-JOY eða TF-WIN varð til þess að Isavia fór á mis við um þrjátíu milljónir króna ef dómur Héraðsdóms verður staðfestur af Landsrétti. Það skiptir hins vegar engu máli hvaða þota varð eftir á landinu ef Landsréttur snýr dómnum við. Því þá þarf ALC að gera upp skuld WOW air á Keflavíkurflugvelli upp á rúma tvo milljarða króna.