Vangreiddu flugvallagjöldin nema um helmingi af hagnaði Isavia

Eftir dóm Héraðsdóms í morgun þá er ALC flugvélaleigunni frjálst að sækja kyrrsettu flugvélina sem staðið hefur við Leifsstöð síðan í lok mars. Dómnum hefur nú þegar verið áfrýjað.

Hinn kyrrsetta TF-GPA á Keflavíkurflugvelli. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Isavia ber að afhenda bandarísku flugvélaleigunni ALC þotuna sem kyrrsett var í kjölfar gjaldþrots WOW air í lok mars. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjaness sem kveðinn var upp í morgun. Kyrrsetning Isavia byggði á rúmlega tveggja milljarða króna vangreiddum notendagjöldum WOW air á Keflavíkurflugvelli en vanskilin hófust síðla árs 2017. Í dómi Héraðsdóms segir að ALC bæri eingöngu að greiða þau flugvallagjöld sem urðu til vegna kyrrsettu þotunnar en ekki allar skuldir WOW air við Isavia.

Í kjölfar dómsins í morgun sendi Isavia frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er furðu með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness, sérstaklega í ljósi þess að hún væri í miklu ósamræmi við fyrri umfjöllun Landsréttar um málið. „Þar lýsti Landsréttur með mjög skýrum hætti skoðun æðra dómsstigs á túlkun lagaákvæðsins. Þá teljum við verulega ámælisvert að beiðni um frestun réttaráhrifa sé hafnað í ljósi þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem undir eru.“

Er þar vísað til þeirrar staðreyndar að ALC getur nú sótt þotuna og Isavia er því ekki lengur með tryggingu fyrir ógreiddu notendagjöldunum jafnvel þó málarekstur haldi áfram í deilunni. Mbl.is sagði svo frá því fyrir stundu að Isavia hefði nú þegar áfrýjað málinu til Landsréttar.

Sem fyrr segir námu ógreiddu notendagjöld WOW air á Keflavíkurflugvelli rúmum tveimur milljörðum króna. Af þeirri upphæð hafði ALC greitt tæpar níutíu milljónir króna til Isavia vegna þeirra gjalda sem, að þeirra mati, mætti rekja til kyrrsettu þotunnar. Eftir standa því einnþá um tveir milljarðar auk mögulegra skaðabóta til flugvélaleigunnar ef endanleg niðurstaða verður Isavia í óhag. Hagnaður Isavia á síðasta ári helmingast þá en hann nam 4,3 milljörðum kr. í fyrra.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia þá gerði fyrirtækið kröfu í þrotabú WOW air vegna skuldarinnar sem nú er deilt um.