Vaxandi áhugi á að ferðast innanlands

Íslendingar hafa fjölmennt til útlanda síðustu ár en í ár hefur dregið aðeins úr utanlandsferðunum. Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki finna fyrir því að heimamenn eru núna meira á ferðinni.

Frá Akureyri. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

„Óhætt er að segja að undanfarin ár hafi orðið sprenging í uppbyggingu á alls kyns þjónustu við ferðamenn um land allt. Íslendingar vita að hringinn í kringum landið er hægt að njóta einstakrar náttúrufegurðar en það sem kannski færri vita er að nú er hægt að njóta fjölbreyttrar afþreyingar og nýrrar upplifunar um land allt,“ segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, aðspurður um hvort fleiri heimamenn séu á ferðinni innanlands en áður. Það sem af er ári hefur dregið aðeins úr ferðum Íslendinga út í heim en ferðagleðin er þó ennþá mikil þegar litið er lengra aftur í tímann.

„Við finnum fyrir vaxandi áhuga Íslendinga að ferðast um landið okkar. Samkvæmt gistináttatölum frá Hagstofu Íslands þá voru gistinætur Íslendinga árið 2018 um 13 prósent allra gistinátta. Þegar gistinætur á tjaldstæðum og í skálum er skoðað er hlutfallið hins vegar nokkuð hærra eða um 30 prósent. Hingað til hafa Íslendingar ferðast mun minna um eigið land heldur en nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndunum, en þar eru samsvarandi tölur um og yfir 60 prósent af öllum gistinóttum,“ segir Skapti Örn.

„Núna í sumar greinum við hjá félagsmönnum í SAF að landsmenn eru meira á faraldafæti en fyrri sumur. Veðurblíða hefur þar örugglega eitthvað segja en einnig aukið framboð á gistingu og afþreyingu, enda stöndumst við samanburð við það sem best þekkist. Það eru því sterk teikn á lofti um að við séum að sækja í okkur veðrið að frerðast innanlands,“ segir Skapti Örn sem bendir á að SAF ætla í allt sumar að gefa vinninga á Facebooksíðu samtakanna í ýmsa ferðaþjónustutengda afþreyingu í samstarfi við félagsmenn sína. „Við hvetjum landsmenn til að fylgjast með og taka þátt.“