Vilja láta reyna á hvort þrotabú WOW geti afhent seldar eignir

Uppsett verð fyrir eignir úr þrotabúi WOW air hefur ekki verið greitt öfugt við það sem skiptastjóri þess hélt fram. Lögmaður umbjóðandans segist ekki eiga von á öðru en málið leysist.

wow radir
Um borð í einni af þeim þotum sem WOW air hafði til umráða. Mynd: WOW air

Tveir hópar vinna nú að því að stofnun nýs íslensks lággjaldaflugfélags. Sá fyrri samanstendur af tveimur af fyrrum stjórnendum WOW air og írskum fjárfestum og sá seinni tengist bandaríska fyrirtækinu US Aerospace Associates sem Michele Balarin fer fyrir. Síðarnefndi hópurinn hefur samkvæmt fréttum keypt vörumerki WOW air, bókunarkerfi félagsins og flugrekstrarbækur. Það hefur þó ekki fengist staðfest nákvæmtlega hvaða eignir er um að ræða. Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabúsins, staðfesti hins vegar fyrir hálfum mánuði síðan að „verðmætustu“ eignir WOW air væru seldar og fullyrti svo við Fréttablaðið í síðustu viku að kaupverðið hefði verið greitt.

Það mun þó ekki vera rétt líkt og Morgunblaðið greindi frá í fyrradag. Aðspurður um raunverulega stöðu málsins þá segir Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður kaupenda, að gerðir hafa verið þrír kaupsamningar milli US Aerospace Associates og þrotabúsins. Í einum þeirra er velt upp hvort seljandi geti í raun afhent ákveðna þætti hins keypta. „US Aerospace vill að það verði sannreynt hvort þeir þættir séu til staðar og hvernig þeir verði afhentir. Verið að vinna lausn á þessu og ekkert sem bendir til annars en að málið leysist,“ segir Páll Ágúst í samtali við Túrista.

Líkt og hér var greint var frá í gær þá segjast flugmálayfirvöld í Washington borg í Bandaríkjunum að þau tengist ekki eða þekki til  áforma US Aerospace Associates um opna höfuðstöðvar WOW air við Washington Dulles flugvöll. Þetta stangast á við fullyrðingar Michele Ballarin í viðtali við viðskiptakálf Morgunblaðsins í fyrradag. Þar sagði hún flugmálayfirvöld í bandarísku höfuðborginni vera „ótrúlega spennt“ yfir því að WOW væri á leið til borgarinnar.

Túristi hefur óskað eftir skýringum frá Michele Ballerin á nokkrum fullyrðingum hennar í fyrrnefndu viðtali. Til að mynda um fyrri störf Charles Celli sem hún segir framkvæmdastjóra US Aerospace og fyrrum forstjóra Gulfstream þó það stemmi ekki við ferilskrá Celli sjálfs á Linkedin. Einnig er spurt hvort þörfin fyrir fyrir sérstaka starfstöð á Dulles flugvelli skrifist á áform um að ráða erlendar áhafnir. Til viðbótar er Ballerin beðin um að útskýra orð sín um að íslenska krónan hafi fallið 30 prósent líkt og Mogginn hafði athugasemdalaust eftir henni. Páll Ágúst, lögmaður US Aerospace Associates, hefur fengið spurningarnar og verða svörin birt um leið og þau berast.