WOW air beið í hálft ár eftir flugrekstrarleyfi

Það var í lok október árið 2013 sem WOW air varð flugfélag. Þá voru liðnir sautján mánuðir frá jómfrúarferð félagsins og rúmt hálft ár frá því að stjórnendur þess skiluðu inn 7.500 blaðsíðna umsókn um flugrekstrarleyfi.

Frá afhendingu umsóknar WOW air á flugrekstrarleyfi í apríl 2013. Myndir: ​Sig­ur­jón Ragn­ar / WOW air

Það eru tveir hópar sem keppast um að stofna nýtt lággjaldaflugfélag á grunni WOW air. Annars vegar tveir af fyrrum stjórnendum WOW air ásamt írskum fjárfestingasjóði og hins vegar bandarískur flugrekandi sem keypti allar helstu eignir þrotabús flugfélagsins fyrir hundruðir milljóna króna samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Meðal þess sem sá bandaríski keypti var vörumerki WOW, lén og flugrekstrarhandbækur.

Það var í síðustu viku sem fréttist af þessum hópum en ennþá eru mörg lykilatriði óljós um áformin. Í gær greindi Rúv hins vegar frá því að fyrrnefndi hópurinn, sem notar vinnuheitið WAB air, hefði sótt um flugrekstrarleyfi hjá Samgöngustofu fyrir þremur vikum síðan. Þá voru rétt þrír mánuðir liðnir frá gjaldþroti WOW air. Til samanburðar liðu um tveir mánuðir frá því að forsvarsmenn WOW air sögðu fyrst frá því opinberlega að þeir hygðust sækja um flugrekstrarleyfi og þar til þeir skiluðu henni til Flugmálastjórnar í apríl 2013. Þá kom fram í tilkynningu frá WOW air að heild­ar­blaðsíðufjöldi umsóknarinnar væri rúm­lega 7.500 blaðsíður.

Ef gögnin sem WAB air afhenti Samgöngustofu eru álíka yfirgripsmikil þá er ljóst að forsvarsmenn þess verkefnis hafa ekki setið auðum höndum síðustu mánuði. En einn af þeim sem kemur að félaginu er Arnar Már Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW air, sem ætti í ljósi fyrri starfa að þekkja vel þær kröfur sem gerðar eru til flugrekenda. Arnar og viðskiptafélagar hans gætu hins vegar þurft að bíða í nokkra mánuði eftir samþykki Samgöngustofu. Það liðu nefnilega rúmir sex mánuðir þar til að umsókn WOW air fékk grænt ljós og því ekki miklar líkur á að jómfrúarferð WAB air verði í haust eins og Fréttablaðið greindi frá að stefnt væri að.

Hið mikla umfang í kringum umsókn um flugrekstrarleyfi auk hins langa afgreiðslutíma er af öllum líkum ástæða þess að flugrekstrarbækur WOW air munu hafa verið ein verðmætasta eign þrotabúsins. Í svörum Samgöngustofu, viku eftir gjaldþrot WOW, fengust til að mynda þau svör hjá stofnuninni að ekki væri útilokað að afgreiða nýtt flugrekstrarleyfi á einum til þremur mánuðum ef undirbúningur væri góður og öll gögn lægju fyrir. Sem fyrr segir keypti ónafngreindi bandaríski flugrekandinn, sem Viðskiptablaðið segir vera Oasis Aviation, flugrekstrarbækur WOW af þrotabúinu. Lögmaður kaupandans staðfesti í samtali við Túrista í gær að umbjóðandi hans undirbúi nú fundi með Samgöngustofu og Isavia.

Flugrekstrarbækur WOW air byggja á því að flugfloti endurreists WOW air nýti alveg eins flugvélar og forveri þess gerði. Fáar þess háttar þotur munu vera á lausu þessa dagana vegna ástandsins sem kyrrsetning Boeing MAX þotanna hefur valdið á flugmarkaðnum. Ekki liggur fyrir hvers konar flugvélar WAB air mun nota.