11 þúsund krónur fyrir sætið í einu jómfrú­ar­ferð vetr­arins

Þann sextánda september hefst á ný beint flug milli Íslands og Kraká í Póllandi. Engin önnur borg bætist við leiðakerfi Keflavíkurflugvallar í vetur.

Frá Kraká. Mynd: Lucas Albuquerque / Unsplash

Síðustu misseri hefur þeim fækkað nokkuð áfanga­stöð­unum sem flogið er til frá Kefla­vík­ur­flug­velli enda munaði ekki lítið um WOW air. Í ofan á lag þá hætti Icelandair við flug til Halifax og Cleve­land í sumar og nú hefur Port­land í Oregon fylki verið tekin út af vetr­ar­pró­grammi flug­fé­lagsins. Eina viðbótin sem er í kort­unum í vetur er því áætl­un­ar­flug Wizz Air til Kraká í aust­ur­hluta Póllands. Sú borg var reyndar lengi fastur liður í sumaráætlun Iceland Express.

Fyrsta ferð Wizz Air til Kraká verður farin frá Kefla­vík­ur­flug­velli mánu­daginn 16. sept­ember og eins og staðan er núna þá kostar sæti í flugið ekki nema rétt um 11 þúsund krónur (80 evrur). Verðið er það sama ef farið er út á föstu­deg­inum og flug­mið­arnir heim kosta álíka mikið.

Af fargjöldum í október að dæma þá er eftir­spurn eftir þessu nýja beina flugi Wizz Air milli Íslands og Kraká ekki sérstak­lega mikil. Þannig er tölu­vert af brott­förum í október og nóvember á undir sjö þúsund krónur og sú ódýr­asta er frá Póllandi þann 29. nóvember því þá kostar flug­sætið aðeins rétt um 2 þúsund krónur.