128 þúsund færri farþegar milli Íslands og Bret­lands

Á fyrri helmingi ársins fækkaði þeim verulega sem nýttu sér flugsamgöngurnar hingað frá Bretlandseyjum.

Frá Gatwick í London. Mynd: Gatwick Airport

Gatwick flug­völlur við Lund­únir hefur verið helsta samgöngu­mið­stöðin fyrir Íslands­flug síðustu ár. Nú hefur flug­ferð­unum þaðan til Kefla­vík­ur­flug­vallar fækkað veru­lega og á fyrri helm­ingi ársins flugu 87 þúsund færri farþegar milli Gatwick og Kefla­vík­ur­flug­vallar en á sama tíma í fyrra. Þá hafði Gatwick mikið forskot á aðra flug­velli þegar kom að farþega­flugi til Íslands eins og sjá má á töfl­unni hér fyrir neðan.

Nú er Heathrow á ný orðin sú breska flug­stöð sem flestir nýta til að fljúga til Íslands. Þaðan flugu samtals 175 þúsund farþegar á fyrstu sex mánuðum ársins en rétt um 150 þúsund frá Gatwick. Hafa ber í huga að stór hluti þeirra sem nýta sér ferðir Icelandair frá Bretlandi eru farþegar sem aðeins milli­lenda hér á landi á leið sinni milli Bret­lands og Norður-Ameríku.

Allt frá stofnun þá flugu þotur WOW air til Gatwick og þó flug­fé­lagið hefði komist í gegnum síðasta vetur þá var samdrátt­urinn á Gatwick fyrir­sjá­an­legur. WOW air hafði nefni­lega selt afgreiðslu­tíma sína á þeim flug­velli og ætlaði að færa Lund­únar­flugið yfir á Stan­sted. WOW air hafði líka skorið niður flug frá Edin­borg en þaðan hefur farþegum í ár fækkað um helming sem gæti opnað dyr fyrir Icelandair í borg­inni.

Til viðbótar við fall WOW air þá hafa bæði easyJet og British Airways skorið niður eða boðað færri flug­ferðir milli Íslands og Bret­lands. Á sama tíma hættu stjórn­endur Wizz Air við að fljúga hingað daglega frá Luton í vetur og láta í staðinn fimm ferðir í viku duga. En Luton flug­völlur er engu að síður í mikilli sókn þegar kemur að Íslands­flugi því þaðan komu 42 prósent fleiri farþegar til landsins á fyrri hluta ársins en á sama tíma í fyrra samkvæmt upplýs­ingum frá breskum flug­mála­yf­ir­völdum. Isavia neitar að birta álíka upplýs­ingar og kærði Túristi þá afstöðu stjórn­enda þess til úrskurð­ar­nefndar upplýs­inga­mála í maí 2018. Niður­staða liggur ekki fyrir í málinu.