13.500 krónur á hvern farþega WOW

Lýstar kröfur í þrotabú WOW air námu rétt rúmlega 138 milljörðum króna. Sú langstærsta er frá eiganda breiðþotanna sem leigðar voru til 12 ára en aldrei teknar í notkun.

wow radir
Samtals flutti WOW air um 10,2 milljónir farþega. MYND: WOW AIR

Jómfrúarferð WOW air var á dagskrá þann 31. maí 2012 og síðasta brottförin frá Keflavíkurflugvelli var seinnipart dags þann 27. mars síðastliðinn. Á þessu nærri sjö ára tímabili flutti WOW air samtals um 10,2 milljónir farþega. Kröfur í þrotabú þess námu rétt rúmlega 138 milljörðum króna. Það jafngildir um 13.500 krónum á hvern og einn farþega í sögu félagsins.

Þessi upphæð skrifast að töluverðu leyti á háar kröfur flugvélaleiga sem áttu þoturnar sem WOW nýtti. Þannig er stærsta krafan frá CIT Aerospace International sem er eitt af dótturfyrirtækjum Avolon flugvélaleigunnar sem leigði WOW samtals sjö Airbus þotur í gegnum mismunandi undirfélög.

CIT Aerospace International krefst 52,8 milljarðar króna úr þrotabúinu samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins. Tólf ára leigusamningur fyrirtækisins, á fjórum splunkunýjum Airbus breiðþotum, til WOW air var kynntur í mars 2017. Tvær þeirra voru tilbúnar til afhendingar um síðustu áramót og höfðu fengið heitin TF-BIG og TF-MOG(ensen). Afhending á þotunum dróst þar sem málarar Airbus stóðu sig ekki í stykkinu. En líkt og Túristi greindi frá í ársbyrjun þá mátti áætla að heildar skuldbinding WOW air, vegna þessara tveggja þota, næmi á bilinu 20 til 30 milljörðum. Og að sú upphæð myndi tvöfaldast þegar seinni tvær þoturnar væru tilbúnar.

Reyndar átti WOW air að hafa náð samkomulagi við leigusalann samkvæmt frétt Fréttablaðsins þann 27. febrúar síðstliðinn. Deginum áður en fresturinn sem skuldabréfaeigendur höfðu gefið Indigo Partners til að ganga frá kaupum á stórum hlut í WOW. Í frétt blaðsins var fullyrt að með samkomulagi við flugvélaleigur hefði síðasta skilyrðinu, sem stæði í vegi fyrir fjárfestingu Indigo Partners í flugfélaginu, verið fullnægt og unnið væri að því að leggja lokahönd á viðskiptin. Það reyndist hins vegar ekki rétt því akkúrat á þessum tímapunkti leitaði forsvarsfólk WOW air á ný til Icelandair.

Þess má geta að breiðþoturnar TF-WOW og TF-LUV sem WOW tók í notkun sumarið 2016 voru jafnframt í eigu CIT Aerospace. Leigusalinn leysti þær til sín með stuttum fyrirvara í lok nóvember og nokkrum dögum síðar rifti Icelandair kaupum sínum á keppinautnum. TF-WOW og TF-LUV eru nú hluti af flugflota Turkish Airlines og þriðja breiðþotan sem WOW air hafði, TF-GAY, er líka hjá tyrkneska flugfélaginu og skráð sem TC-LOL.