13.500 krónur á hvern farþega WOW

Lýstar kröfur í þrotabú WOW air námu rétt rúmlega 138 milljörðum króna. Sú langstærsta er frá eiganda breiðþotanna sem leigðar voru til 12 ára en aldrei teknar í notkun.

wow radir
Samtals flutti WOW air um 10,2 milljónir farþega. MYND: WOW AIR

Jómfrú­ar­ferð WOW air var á dagskrá þann 31. maí 2012 og síðasta brott­förin frá Kefla­vík­ur­flug­velli var seinnipart dags þann 27. mars síðast­liðinn. Á þessu nærri sjö ára tíma­bili flutti WOW air samtals um 10,2 millj­ónir farþega. Kröfur í þrotabú þess námu rétt rúmlega 138 millj­örðum króna. Það jafn­gildir um 13.500 krónum á hvern og einn farþega í sögu félagsins.

Þessi upphæð skrifast að tölu­verðu leyti á háar kröfur flug­véla­leiga sem áttu þoturnar sem WOW nýtti. Þannig er stærsta krafan frá CIT Aerospace Internati­onal sem er eitt af dótt­ur­fyr­ir­tækjum Avolon flug­véla­leig­unnar sem leigði WOW samtals sjö Airbus þotur í gegnum mismun­andi undir­félög.

CIT Aerospace Internati­onal krefst 52,8 millj­arðar króna úr þrota­búinu samkvæmt frétt Viðskipta­blaðsins. Tólf ára leigu­samn­ingur fyrir­tæk­isins, á fjórum splunku­nýjum Airbus breið­þotum, til WOW air var kynntur í mars 2017. Tvær þeirra voru tilbúnar til afhend­ingar um síðustu áramót og höfðu fengið heitin TF-BIG og TF-MOG(ensen). Afhending á þotunum dróst þar sem málarar Airbus stóðu sig ekki í stykkinu. En líkt og Túristi greindi frá í ársbyrjun þá mátti áætla að heildar skuld­binding WOW air, vegna þessara tveggja þota, næmi á bilinu 20 til 30 millj­örðum. Og að sú upphæð myndi tvöfaldast þegar seinni tvær þoturnar væru tilbúnar.

Reyndar átti WOW air að hafa náð samkomu­lagi við leigu­salann samkvæmt frétt Frétta­blaðsins þann 27. febrúar síðs­tliðinn. Deginum áður en frest­urinn sem skulda­bréfa­eig­endur höfðu gefið Indigo Partners til að ganga frá kaupum á stórum hlut í WOW. Í frétt blaðsins var fullyrt að með samkomu­lagi við flug­véla­leigur hefði síðasta skil­yrðinu, sem stæði í vegi fyrir fjár­fest­ingu Indigo Partners í flug­fé­laginu, verið full­nægt og unnið væri að því að leggja loka­hönd á viðskiptin. Það reyndist hins vegar ekki rétt því akkúrat á þessum tíma­punkti leitaði forsvars­fólk WOW air á ný til Icelandair.

Þess má geta að breið­þot­urnar TF-WOW og TF-LUV sem WOW tók í notkun sumarið 2016 voru jafn­framt í eigu CIT Aerospace. Leigu­salinn leysti þær til sín með stuttum fyrir­vara í lok nóvember og nokkrum dögum síðar rifti Icelandair kaupum sínum á keppi­nautnum. TF-WOW og TF-LUV eru nú hluti af flug­flota Turkish Airlines og þriðja breið­þotan sem WOW air hafði, TF-GAY, er líka hjá tyrk­neska flug­fé­laginu og skráð sem TC-LOL.