1,7 prósent ferðamanna flugu innanlands

Á meðan sex af hverjum tíu ferðamönnum hér á landi leigja sér bíl þá eru þeir fáir sem nýta sér áætlunarflug til að komast á milli staða.

Frá Akureyrarflugvelli. Mynd: Isavia

Uppsveiflan í íslenskri ferðaþjónustu hófst á árunum 2011 og 2012 og hefur erlendu ferðafólki hér á landi fjölgað verulega síðan þá. Allt árið 2011 komu hingað um 541 þúsund útlendingar en þeir voru rúmlega 2,3 milljónir í fyrra. Farþegum í innanlandsflugi fækkaði hins vegar á þessu sjö ára tímabili þrátt fyrir að ferðamannahópurinn hafi stækkað um 1,8 milljón einstaklinga eins og sjá á súluritinu hér fyrir neðan.

Segja má að nýleg landamærakönnun Ferðamálastofu endurspegli þessa stöðu að nokkru leyti því niðurstöður hennar sýna að hlutfall þeirra erlendu ferðamanna sem nýta sér innanlandsflug er lágt eða 1,7 prósent. Til samanburðar nýttu um 60 prósent ferðamanna sér bílaleigubíla.

Ekki eru til sambærilegar eldri kannanir og því ekki hægt að segja til um hvernir hlutfallið hefur þróast síðustu ár. Niðurstöður ferðavenjukönnunar Ferðamálastofu, meðal erlendra gesta á Ísafirði sumrin 2014 og 2018, sýnir þó að hlutfall þeirra túrista sem flaug til bæjarins lækkaði úr átta prósentum í fimm prósent á milli þessara tveggja ára.

Það hefur þó komið fram í máli forsvarsmanna flugfélaganna að hlutfall erlendra ferðamanna hafi aukist verulega síðustu ár og sé komið upp undir fimmtung af heildar farþegafjöldanum. En þess ber að geta að farþegar í innanlandsflugi eru taldir á hverjum einasta fluglegg á meðan erlendir ferðamenn eru aðeins taldir við brottför úr landi.