39 prósent færri áætlunarferðir til Bandaríkjanna

Af þeim tíu löndum sem oftast var flogið til frá Keflavíkurflugvelli í júlí þá fjölgaði ferðunum eingöngu til Noregs og Sviss.

Bandaríska flugfélagið Delta er eitt af þeim fjórum sem flýgur reglulega milli Íslands og Bandaríkjanna. Mynd: Delta Air Lines

Flugsamgöngur milli Íslands og Bandaríkjanna jukust verulega síðastliðið sumar með tilkomu Íslandsflugs American Airlines og United Airlines. Á sama tíma fjölgaði áfangastöðum Icelandair og WOW air vestanhafs og í júlí í fyrra voru farnar héðan samtals 989 áætlunarferðir til  bandarískra flugvalla. Í nýliðnum júlí fór fjöldinn hins vegar niður í 606 ferðir og nemur samdrátturinn 39 prósentum.

Þrátt fyrir það eru Bandaríkin ennþá það land sem oftast er flogið til og lætur nærri að fjórða hver farþegaþota sem tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli setji stefnuna þangað. Vægi Þýskalands og Bretlands er álíka mikið eða um tíund eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan. Síðustu sumur hefur Bretland verið í öðru sæti á listanum yfir þau lönd sem oftast er flogið til en hefur nú sætaskipti við Þýskaland enda fækkaði áætlunarferðunum til Bretlands um þrjátíu af hundraði í júlí.

Þessar tölur byggja á  mánaðarlegum talningum Túrista á umferð um Keflavíkurflugvöll. Upplýsingar um farþegafjölda eftir flugleiðum er ekki opinber, öfugt við það sem tíðkast í mörgum löndum, og þá afstöðu stjórnenda Isavia kærði Túristi til úrskurðarnefndar upplýsingamála í maí í fyrra. Ennþá liggur ekki fyrir niðurstaða í málinu.

Í nýliðnum júlí stóð Icelandair undir um tveimur af hverjum þremur flugferðum frá Keflavíkurflugvelli og hefur hlutfallið ekki verið svo hátt lengi.