Aðeins ein ferð milli Íslands og Japans

Japanska flugfélagið JAL flýgur þotu sinni hingað frá Tókýó í lok mánaðar. Engar ferðir verða hins vegar í boði frá Osaka að þessu sinni.

Boeing Dreamliner þota Japan Airlines. Mynd: Japan Airlines

Áttunda haustið í röð stendur Japan Airlines fyrir leiguflugi til Íslands beint frá Japan fyrir þarlendar ferðaskrifstofur. Að þessu sinni verður eingöngu ein brottför í boði og lendir þota flugfélagsins hér 31. ágúst. Hún sækir svo farþegana á ný viku síðar. Síðustu haust hafa ferðirnar verið á bilinu tvær til fjórar og þá stundum líka frá Osaka, þriðju fjölmennustu borg Japans.

Þetta árlega haustflug Japan Airlines til Íslands er líklega helsta skýringin á því að lengi vel voru japanskir ferðamenn fjölmennastir hér landi í september. Á því hefur hins vegar orðið breyting síðustu tvö ár og nú koma fletir Japanir til Íslands í janúar og febrúar. Og í ljós þess að nú verður aðeins eitt leiguflug í boði frá Tokýó þá verða áhrifin lítil í haust.

Á tímabili sýndu forsvarsmenn japanska flugfélagsins áhuga á því að koma tómum sætum í Íslandsfluginu í sölu hér á landi. Aldrei varð hins vegar neitt úr því og þar með flugu þoturnar tómar heim til Japan eftir að hafa skilað farþegum í fyrstu ferð haustsins. Þær snéru svo hingað tómar á ný þegar síðasti hópur ársins var sóttur.