Áfram dregur Norwegian úr Ameríkuflugi

Kyrrsetningin á Boeing MAX þotunum er megin skýringin á því að Norwegian dregur saman seglin á Írlandi. Ástandið á þotunum olli líka miklu búsifjum hjá stærsta ferðaskipuleggjanda Evrópu sem metur tjónið á hverja MAX vél tvöfalt hærra en stjórnendur Icelandair hafa gert.

Mynd: Norwegian

Strax um miðjan næsta mánuð leggur Norwegian niður allt áætlunarflug frá írsku borgunum Dublin, Cork og Shannon yfir á austurströnd Norður-Ameríku. Þessi breytingu skrifa stjórnendur flugfélagsins á kyrrsetningu Boeing MAX þotanna enda byggði Ameríkuflugið frá írsku borgunum á þessum nýju flugvélum. Eldri Boeing 737 þotur Norwegian eru ekki nógu langdrægar til að fylla skarðið sem MAX þoturnar skilja eftir sig í flugflota norska lággjaldaflugfélagsins.

Samkvæmt frétt Irish Times gætu 134 flugliðar Norwegian á Írlandi misst vinnuna vegna þessara breytinga á leiðakerfi flugfélagsins. Til viðbótar við niðurskurði þar þá hefur Norwegian dregið umtalsvert úr Ameríkuflugi frá Skandinavíu og Skotlandi sem gæti m.a. opnað tækifæri fyrir Icelandair í Edinborg.

Áætlunarflug Norwegian milli Írlands og Norður-Ameríku á sér aðeins tveggja ára sögu og ekki munaði miklu á að félagið yrði í harðri samkeppni við WOW air í upphafi útgerðarinnar. Skúli Mogensen hafði nefnilega uppi áform um að opna aðra starfstöð þar sem hann taldi að stærð Keflavíkurflugvallar hamlaði frekari vexti WOW. Í viðtali við Independent í ársbyrjun 2017 sagði Skúli að Dublin væri einn af þeim þremur stöðum sem væri til skoðunar sem ný heimahöfn WOW air. Á þessum tíma var WOW air einnig að hefja áætlunarflug til Cork en sú flugleið varð skammlíf.

Þessi mikli niðurskurður hjá Norwegian á Írlandi er ekki einu neikvæðu fréttirnar sem bárust í gær af afleiðingu kyrrsetningar MAX þotanna á rekstur flugfélaga. Nýtt ársfjórðungs uppgjör ferðaskrifstofurisans TUI litast nefnilega verulega af flugbanninu sem nú hefur verið í gildi í fimm mánuði. Stjórnendur TUI telja að neikvæð áhrif kyrrsetningarinnar nemi um 20 milljörðum króna (144 milljónum evra) á síðusta ársfjórðungi. Það jafngildir um 1,3 milljörðum kr. á hverja MAX þotu sem TUI hefur fengið afhenda. Það er um tvöfalt hærri upphæð en í mati stjórnenda Icelandair á neikvæðum áhrifum MAX krísunnar á sitt félag á öðrum ársfjórðungi. Sú áætlun var þó töluvert hærri en það mat sem stjórnendur Norwegian gáfu út. Í ljósi nýboðaðs niðurskurðar hjá norska flugfélaginu á Írlandi þá má velta fyrir sér hvort sú tala verði endurskoðuð.