Aldrei fleiri bandarískir hótelgestir á Norður- og Austurlandi

Bandarískum ferðamönnum fækkaði um rúman þriðjung í júní en þeim fækkaði miklu minna á íslenskum hótelum. Sá samdráttur var hins vegar ólíkur eftir landshlutum.

Frá Akureyri. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Þrír af hverjum tíu ferðamönnum sem hingað komu í júní voru bandarískir og í þeim mánuði stóðu þeir jafnframt undir þriðjungi allra hótelnótta sem útlendingar bókuðu hér á landi. Athygli vekur að gistinóttum Bandaríkjamanna, á íslenskum hótelum, fækkaði aðeins um tíund í júní þrátt fyrir að fjöldi bandarískra ferðamanna hafi dregist saman heil 35 prósent á sama tíma.

Skýringin á þessum mikla mun kann að liggja í því að bandarískum gestum hafi fækkað mun meira í annars konar gistingu, t.d. á gistiheimilum og heimagistingu á vegum Airbnb. Nýjustu gistináttatölur Hagstofunnar eru þó aðeins greinanlegar eftir þjóðernum þegar kemur að hótelum.

Þegar tölur yfir hótelnætur Bandaríkjamanna eru skoðaðar eftir landshlutum kemur í ljós að þeim fjölgaði hlutfallslega langmest á Norðurlandi eða um rúman fimmtung. Á Austurlandi var viðbótin líka umtalsverð og hafa bandarískar hótelnætur ekki áður verið jafn margar í þessum landshlutum í júní eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Aftur á móti fækkaði Bandaríkjamönnum töluvert á hótelum á Suðurnesjum því gistinætur þeirra voru um þrjátíu prósent færri en í júní í fyrra. Á Suðurlandi nam samdrátturinn rúmum fimmtungi.