Ball­arin fundar um endur­reisn WOW í Reykjavík

Bandaríska afthafnakonan Michele Ballarin er stödd hér á landi og hefur fengið Gunnar Stein Pálsson almannatengil í lið með sér.

WOW þota á Stansted flugvelli í London. Mynd: London Stansted

Þó skipta­stjórar WOW air hafi rift kaup­samn­ingi sínum við Michele Ball­arin, á helstu eignum þrota­búsins, þá vinnur hún ennþá að stofnun nýs félags á grunni WOW air. Og það er ástæða þess að Ball­arin er núna stödd hér á landi og fundar með frammá­fólki í íslenskri ferða­þjón­ustu og viðskipta­lífi samkvæmt heim­ildum Túrista. Í föru­neyti hennar er sem fyrr lögmað­urinn Páll Ágúst Ólafsson en einnig Gunnar Steinn Pálsson almanna­tengill. Í samtali við Túrista stað­festi Gunnar Steinn að hann ynni „með” Michele Ball­arin en vildi að öðru leyti ekkert tjá sig um málið. Gunnar Steinn hefur síðustu áratugi verið einn þekkt­asti almanna­tengill landsins og meðal annars unnið fyrir Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrum forseta. Auk þess var hann ráðgjafi fyrir banka­stjóra Kaupþings fyrir hrun og Hannes Smárason.

Líkt og Ball­arin lýsti í tveggja opnu viðtali við viðskipta­kálf Morg­un­blaðsins þann 24. júlí þá hyggst hún í félagi við fleiri fjár­festa setja um 12 millj­arða króna í endur­reisn WOW air. Fyrstu skref munu vera að hefja flug milli Banda­ríkj­anna og Íslands. Þar á meðal frá Dulles flug­velli við Washington borg þar sem ætlunin var að opna höfuð­stöðvar flug­fé­lagsins og sérstaka WOW air biðstofu. Við þessi áform könn­uðust flug­mála­yf­ir­völd í banda­rísku höfuð­borg­inni ekki líkt og Túristi hefur áður greint frá.