Ballarin fundar um endurreisn WOW í Reykjavík

Bandaríska afthafnakonan Michele Ballarin er stödd hér á landi og hefur fengið Gunnar Stein Pálsson almannatengil í lið með sér.

WOW þota á Stansted flugvelli í London. Mynd: London Stansted

Þó skiptastjórar WOW air hafi rift kaupsamningi sínum við Michele Ballarin, á helstu eignum þrotabúsins, þá vinnur hún ennþá að stofnun nýs félags á grunni WOW air. Og það er ástæða þess að Ballarin er núna stödd hér á landi og fundar með frammáfólki í íslenskri ferðaþjónustu og viðskiptalífi samkvæmt heimildum Túrista. Í föruneyti hennar er sem fyrr lögmaðurinn Páll Ágúst Ólafsson en einnig Gunnar Steinn Pálsson almannatengill. Í samtali við Túrista staðfesti Gunnar Steinn að hann ynni „með“ Michele Ballarin en vildi að öðru leyti ekkert tjá sig um málið. Gunnar Steinn hefur síðustu áratugi verið einn þekktasti almannatengill landsins og meðal annars unnið fyrir Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrum forseta. Auk þess var hann ráðgjafi fyrir bankastjóra Kaupþings fyrir hrun og Hannes Smárason.

Líkt og Ballarin lýsti í tveggja opnu viðtali við viðskiptakálf Morgunblaðsins þann 24. júlí þá hyggst hún í félagi við fleiri fjárfesta setja um 12 milljarða króna í endurreisn WOW air. Fyrstu skref munu vera að hefja flug milli Bandaríkjanna og Íslands. Þar á meðal frá Dulles flugvelli við Washington borg þar sem ætlunin var að opna höfuðstöðvar flugfélagsins og sérstaka WOW air biðstofu. Við þessi áform könnuðust flugmálayfirvöld í bandarísku höfuðborginni ekki líkt og Túristi hefur áður greint frá.