Boðar sparn­að­ar­að­gerðir hjá SAS

Hátt olíuverð, veik sænsk króna og flugmannaverkfall eru helstu ástæður þess að hagnaður á síðasta ársfjórðungi dróst saman hjá SAS. Félagið þarf því að grípa til ráðstafana að mati forstjórans.

Rickardm Gustafson, forstjóri SAS. Mynd: SAS

Afkoma flug­fé­lagsins SAS á síðasta fjórð­ungi var jákvæð um nærri einn og hálfan milljarð sænskra króna. Það jafn­gildir um 19,2 millj­örðum íslenskra króna. Á sama tíma í fyrra var hagn­að­urinn um fjórð­ungi hærri og skrifa stjórn­endur flug­fé­lagsins samdráttinn á hærra olíu­verð, flug­manna­verk­fall og svo hefur veikt gengi sænsku krón­unnar slæm áhrif en SAS gerir upp í þeirri mynt. Þetta er meðal þess sem kom fram í tilkynn­ingu sem félagið sendi frá sér í morgun í tilefni af uppgjöri fyrir þriðja fjórðung ársins. Honum lauk í lok júlí þar sem reikn­ings­árið hjá SAS nær frá 1. nóvember til loka október.

Þriðji fjórð­ungur ársins nær þar með yfir maí til júlí og er því arðbær­asti hluti ársins því þá eru flestir á ferð­inni. Rickard Gustafson, forstjóri SAS, vildi í samtölum við fjöl­miðla í morgun þó ekki gefa neitt út um hvort félagið yrði rekið með hagnaði í ár, sagði aðeins að það væri áskorun að enda árið réttum megin við núllið.

Og forstjórinn boðar áfram­hald­andi aðhald í rekstri þar sem eininga­kostn­aður hefði ekki lækkað í takt við áætlanir. Þannig á að breyta fram­kvæmda­stjórn félagsins með það fyrir augum að skerpa á ábyrgð og flýta nauð­syn­legum umbreyt­ingum í rekstr­inum eins og það er kallað í kynn­ingu. Í yfir­stjórn SAS eiga sæti sex fram­kvæmda­stjórar auk forstjórans en til saman­burðar þá eru fram­kvæmda­stjór­arnir átta talsins hjá Icelandair.