Færa Íslandsflugið næsta sumar frá Dallas til Philadelphia

Beint flug til Dallas frá Keflavíkurflugvelli verður ekki í boði á næsta ári en aftur á móti munu farþegar þar geta valið á milli ferða með bæði American Airlines og Icelandair til Philadelphia.

Ráðhúsið í Philadelphia. Mynd: C. Smyth for VISIT PHILADELPHIA®

Sú óvenjulega staða kom upp í fyrra að bæði íslensku flugfélögin hóf flug til Dallas í Texas-fylki og um leið hóf American Airlines, stærsta flugfélag í heimi, að fljúga hingað frá borginni. Við þessa samkeppni réðu Icelandair og WOW air ekki og tilkynntu stjórnendur flugfélaganna í haust að þráðurinn yrði ekki tekinn upp nú í sumar. American Airlines hélt hins vegar sínu striki. Á því verður nú breyting því í svari frá flugfélaginu, við fyrirspurn Túrista, segir að næsta sumar muni þotur American Airlines fljúga til Íslands daglega frá Philadelphia. Á sama tíma verður flugið hingað frá Dallas lagt niður en það hefur jafnframt verið á boðstólum alla daga vikunnar.

Að sögn blaðafulltrúa American Airlines þá hefur þessi breyting það meðal annars í för með sér að möguleikar farþega á tengiflugi, í tenglsum við Íslandsferðirnar, munu aukast enda flýgur American Airlines út um öll Bandaríkin frá Philadelphia.

Þessi uppstokkun hjá American Airlines gerir það að verkum að nú fær Icelandair samkeppni í flugi til Philadelphia. Borgin hefur verið hluti af sumaráætlun félagsins síðustu ár og í nýliðnum júlí flugu þotur félagsins sautján ferðir til borgarinnar samkvæmt talningu Túrista. Sem fyrr segir ætlar American Airlines hins vegar að fljúga þessa leið daglega frá 4. júní til24. október.