Færri túristar frá Texas

Nú þegar American Airlines leggur niður flug sitt milli Íslands og Dallas er ljóst að íslensk ferðaþjónusta sér á eftir þúsundum ferðamanna frá borginni.

Frá Dallas í Texas. Eins og staðan er núna þá verður ekki flogið þangað frá Keflavíkurflugvelli næsta sumar. Ferðamálaráð Dallas

Íslandsflug frá Dallas í Texas var í fyrsta sinn á boðstólum síðastliðið sumar. Þá flugu þotur American Airlines, Icelandair og WOW air reglulega til borgarinnar frá vori og fram á haust. Nærri eitt hundrað þúsund farþegar nýttu sér þessar flugsamgöngur og miðað við þær upplýsingar sem Túristi fékk frá flugmálayfirvöldum borgarinnar þá voru bandarísku ferðamennirnir, sem hingað komu frá Dallas, um 24 þúsund. Það eru nokkru fleiri ferðamenn en heimsóttu Ísland frá Sviss á sama tíma.

Nú í sumar hefur American Airlines verið eitt um flugið hingað frá Dallas en engu að síður ætlar félagið ekki að halda áfram á næstu ári líkt og greint var frá í morgun. Þess í stað munu þotur þessa stærsta flugfélags í heimi fljúga hingað daglega frá Philadelphia á austurströnd Bandaríkjanna næsta sumar.

Ekki liggur fyrir hversu margir hafa nýtt sér flugferðir American Airlines hingað frá Dallas í sumar. En gera má ráð fyrir að sæti séu fyrir rétt rúmlega tuttugu þúsund farþega í ferðum félagsins til Keflavíkurflugallar í sumar og haust. Þetta framboð dettur hins vegar út á næsta ári nema stjórnendur Icelandair sjái tækifæri í að taka upp þráðinn í Dallas nú þegar American Airlines ætlar að snúa sér annað. Á sama tíma gæti Icelandair hins vegar látið gott heita í Philadelphia en þangað hefur félagið flogið síðustu tvö sumur. Samkeppnin við American Airlines í Dallas í fyrra reyndist íslenska félaginu nefnilega erfið.