Færri túristar frá Texas

Nú þegar American Airlines leggur niður flug sitt milli Íslands og Dallas er ljóst að íslensk ferðaþjónusta sér á eftir þúsundum ferðamanna frá borginni.

Frá Dallas í Texas. Eins og staðan er núna þá verður ekki flogið þangað frá Keflavíkurflugvelli næsta sumar. Ferðamálaráð Dallas

Íslands­flug frá Dallas í Texas var í fyrsta sinn á boðstólum síðast­liðið sumar. Þá flugu þotur American Airlines, Icelandair og WOW air reglu­lega til borg­ar­innar frá vori og fram á haust. Nærri eitt hundrað þúsund farþegar nýttu sér þessar flug­sam­göngur og miðað við þær upplýs­ingar sem Túristi fékk frá flug­mála­yf­ir­völdum borg­ar­innar þá voru banda­rísku ferða­menn­irnir, sem hingað komu frá Dallas, um 24 þúsund. Það eru nokkru fleiri ferða­menn en heim­sóttu Ísland frá Sviss á sama tíma.

Nú í sumar hefur American Airlines verið eitt um flugið hingað frá Dallas en engu að síður ætlar félagið ekki að halda áfram á næstu ári líkt og greint var frá í morgun. Þess í stað munu þotur þessa stærsta flug­fé­lags í heimi fljúga hingað daglega frá Phila­delphia á aust­ur­strönd Banda­ríkj­anna næsta sumar.

Ekki liggur fyrir hversu margir hafa nýtt sér flug­ferðir American Airlines hingað frá Dallas í sumar. En gera má ráð fyrir að sæti séu fyrir rétt rúmlega tuttugu þúsund farþega í ferðum félagsins til Kefla­vík­ur­flugallar í sumar og haust. Þetta framboð dettur hins vegar út á næsta ári nema stjórn­endur Icelandair sjái tæki­færi í að taka upp þráðinn í Dallas nú þegar American Airlines ætlar að snúa sér annað. Á sama tíma gæti Icelandair hins vegar látið gott heita í Phila­delphia en þangað hefur félagið flogið síðustu tvö sumur. Samkeppnin við American Airlines í Dallas í fyrra reyndist íslenska félaginu nefni­lega erfið.