Ferða­manna­straum­urinn stenst ekki lengur saman­burð við 2016

Fjöldi ferðamanna hér á landi síðustu mánuði hefur verið minni en síðustu tvö ár en þó nokkru meiri en fyrir þremur árum síðan. Á því varð breyting í síðasta mánuði.

Frá Íslandi flugu 231 þúsund erlendir ferðamenn í júlí. Þar af voru Bandaríkjamenn um 28 prósent af heildinni. Hlutfallið var 37 prósent í júlí í fyrra. Mynd: Iceland.is

Við gjald­þrot WOW air fækkaði erlendum ferða­mönnum hér á landi veru­lega í saman­burði við síðustu tvö ár. Fjöldinn var þó alltaf nokkru meiri en árið 2016 og þannig komu hingað um 442 þúsund ferða­menn fyrstu þrjá mánuðina eftir fall WOW. Á sama tíma­bili árið 2016 voru þeir um tíund færri.

Í nýliðnum júlí snérist dæmið hins vegar við því þá komu hingað aðeins færri ferða­menn en í júlí 2016. Þá voru erlendu ferða­menn­irnir um 236 þúsund talsins eða fimm þúsund fleiri en í júlí í ár. Ferða­manna­straum­urinn var engu að síður miklu meiri en í júlí árin þar á undan eins og sjá má á súlu­ritinu.

Þess ber að geta að síðustu mánuði hafa tölur Hagstof­unnar sýnt nokkru minni samdrátt í gistinóttum útlend­inga hér á landi en sem nemur fækkun erlendra ferða­manna á Kefla­vík­ur­flug­velli.

Sem fyrr fækkar Banda­ríkja­mönnum hér á landi mest eða um 36 prósent í júlí. Til saman­burðar þá fækkaði flug­ferð­unum milli Íslands og Banda­ríkj­anna um 39 prósent í júlí líkt og saman­tekt Túrista sýndi. Hlut­falls­lega var fækkun breskra og þýskra ferða­manna líka í takt við samdrátt í flugi.

Athygli vekur að þrátt fyrir tíðari brott­farir frá Sviss og Noregi í júlí þá fækkaði ferða­mönnum frá þessum tveimur löndum. Skýr­ingin á því kann að vera sú að hlut­fall tengifar­þega á þessum flug­leiðum sé hátt hjá Icelandair eða að aðrar þjóðir nýti sér Íslands­flug frá Noregi og Sviss í auknum mæli.