Flugsæti á niðursettu verði í sólina

Stærstu ferðaskrifstofur landsins eru núna með tilboð á flugmiðum til sólarlanda.

grikkland strond Alex Blajan
Mynd Alex Blajan / Unsplash

Það styttist í að skólarnir byrji á ný og þá lækkar venjulega verðið á sólarlandaferðum. Að minnsta kosti þegar borið er saman við vinsælustu brottfarirnar í í júní og júlí. Og þeir sem vilja komast út í ennþá meiri hita strax eftir verslunarmannahelgi hafa úr töluverðu að moða. Á heimasíðum stærstu ferðaskrifstofanna má nefnilega finna þónokkuð af tilboðum á farmiðum til Kanarí, Tenerife, Alicante og fleiri spænskra sólarstaða.

Ódýrustu miðarnir, aðra leiðina, til Alicante á þriðjudaginn kosta þannig 15 þúsund krónur hjá Heimsferðum og á fimmtudaginn er farið á 20 þúsund hjá Vita. Þann sama dag er líka hægt að fljúga til Mílanó og heim aftur fjórum dögum síðar fyrir 30 þúsund krónur. Einnig er hægt að finna flugmiða á niðursettu verði hjá Plúsferðum og úrvalið hjá ferðaskrifstofunum er töluvert en heimferðin er oftar en ekki dýrari en flugferðin út.

Og það eru þó ekki aðeins flugmiðar á tilboði hjá ferðaskrifstofunum því þar er líka töluvert af tilboðum af pakkaferðum með flugsæti og gistingu. Í einhverjum tilvikum er afslátturinn allt að 100 þúsund krónur á mann miðað við þær upplýsingar sem finna má á tilboðssíðunum.