Hætta flugi til Portland

Nú gera áætlanir Icelandair ráð fyrir að Boeing MAX þoturnar fari ekki í loftið fyrr en í byrjun næsta árs. Dregið verður úr brottförum til Norður-Ameríku og vetrarflug til Portland leggst af.

portland Zack Spear
Frá Portland borg sem ekki verður hluti af vetraráætlun Icelandair. Mynd: Zack Spear / Unsplash

Nú er fimm mánuðir liðnir frá því að Boeing MAX þotur voru kyrrsettar um heim allan í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa. Ennþá sér ekki fyrir endann á flugbanninu og í kvöld sendi Icelandair frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að uppfærð flugáætlun félagsins gerir ekki ráð fyrir þotunum fyrir árslok. Áður var reiknað með þotunum í lok október þegar vetraráætlun flugfélaga hefst formlega.

Ein af afleiðingum þessarar seinkunar er að Icelandair gerir hlé á áætlunarflugi til bandarísku borgarinnar Portland í Oregon fylki en tekur aftur upp þráðinn í borginni næsta sumar.

Samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu Icelandair þá eykst heildarsætaframboð félagsins í nóvember og desember um tæplega 3 prósent miðað við sama tímabil 2018 þrátt fyrir breytingarnar. Skýrist það af tíðari ferðum til Kaupmannahafnar, Dublin, Brussel og Berlínar og eins bandarísku borganna Minneapolis, Denver og Orlando auk Vancouver í Kanada.

Yfirstandandi sumaráætlun Icelandair gerði ráð fyrir að félagið hefði níu MAX þotur í rekstri. Fimm þotur voru leigðar í staðinn og ein þeirra verður áfram í flugflota Icelandair í vetur.

Eins og fram kom í uppgjöri annars ársfjórðungs hjá Icelandair þá er félagið í viðræðum við Boeing um að fá allt fjárhagslegt tjón sem hlotist hefur af kyrrsetningu Boeing MAX þotanna bætt.