Helmingi fleiri Íslendingar í Vín

Nú er hægt að fljúga beint héðan til höfuðborgar Austurríkis allt árið um kring og greinilegt að landinn nýtir sér það.

vin2
Frá Vínarborg. Mynd: Ferðamálaráð Vínar

Næturflug yfir hásumarið hefur lengi verið eina beina flugið milli Íslands og Vínarborgar en í vetrarlok hóf Wizz Air að fljúga hingað frá austurrísku höfuðborginni og mun halda ferðunum úti í allan vetur. Þessari samgöngubót hafa Íslendingar tekið vel því samkvæmt tölum ferðamálaráðs Vínarborgar þá fjölgaði íslenskum gestum á hótelum borgarinnar um rúman helming á fyrri hluta ársins. Hátt í tvö þúsund og fimm hundrað Íslendingar tékkuðu sig á þessu tímabili inn á hótel eða gistihús í borginni og keyptu samtals 6.392 gistinætur.

Íslensku gestirnir leggja sig flestir á fjögurra stjörnu hótelum í Vínarborg samkvæmt tölfræði ferðamálaráðsins fyrir júní mánuð. Þar sést að um helmingur íslensku gistináttanna er á hótelum í þeim flokki. Um fjórðungur á þriggja stjörnu hótelum en um tíunda hver nótt á fimm stjörnu hótelum. Aðrir sofa á gistiheimilum eða lakari hótelum. Gera má ráð fyrir að þeir sem bóka gistingu hjá Airbnb séu ekki meðtaldir.

Á sama tíma og íslenskum túristum hefur fjölgað í Vínarborg þá hafa fleiri Austurríkismenn lagt leið sína hingað í ár. Nemur aukningin sjö af hundraði en hlutfallslega hefur aðeins orðið meiri fjölgun í komum Kínverja og Rússa hingað til lands það sem af er ári.