Samfélagsmiðlar

Hið dýrkeypta ójafnvægi hjá Icelandair

Þrátt fyrir að hafa séð á eftir helsta keppinautnum þá var sætanýtingin hjá Icelandair í júlí sú lægsta sem mælst hefur síðastliðinn áratug. Megin skýringin liggur í því hversu illa leiðakerfi félagsins hefur farið út úr kyrrsetningu MAX þotanna. Eftir standa þó spurningar afhverju flugvélarnar voru ekki teknar fyrr út úr sumaráætluninni og hvort flugferðirnar til Evrópu hafi verið of fáar.

Fjórar af Boing MAX þotum Icelandair sem staðið hafa á Keflavíkurflugvelli síðan um miðjan mars.

Stjórnendur Icelandair skrifuðu slæma afkomu á síðasta ári að miklu leyti á ójafnvægi í sumaráætlun félagsins. Það lýsti sér í því að flugferðum til Bandaríkjanna var fjölgað á kostnað Evrópuflugs en þar sem sala á ferðum til og frá N-Ameríku var ekki í takt við aukið framboð þá lækkaði sætanýtingin á þeim flugleiðum verulega. Aftur á móti var eftirspurnin góð í Evrópu og þangað fóru þoturnar þéttsetnari. Hlutfallslega munaði töluverðu á sætanýtingunni hjá Icelandair allt síðasta sumar og haust eftir því til hvorrar álfunnar var flogið. Í júlí í fyrra voru t.d. 91 prósent sætanna skipuð farþegum í þotunum sem flugu til Evrópu en rétt um 82 prósent í Ameríkuflugi Icelandair.

Svona sundurliðun á sætanýtingu eftir heimsálfum birti félagið í fyrsta skipti síðastliðið sumar og þá væntanlega til að útskýra fyrir hluthöfum afleiðingar þessa ójafnvægis. Samskonar upplýsingar er þó ekki að finna í flutningatölum Icelandair fyrir nýliðinn júlí þrátt fyrir að stjórnendur þess viðurkenni að núna hafi leiðakerfið aftur farið úr skorðum. Í kynningu á afkomu fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi, sem birt var í síðustu viku, kemur fram að breytingar á áætluninni, sem gerðar voru með stuttum fyrirvara vegna kyrrsetningar MAX þotanna, hafi valdið ójafnvægi í leiðakerfinu. Afleiðingin er lægri sætanýting í júlí en dæmi eru um hjá Icelandair. Alla vega þegar horft er til baka síðastliðinn áratug.

Ekki liggur fyrir hvort ástandið síðasta sumar hafi endurtekið sig með þeim afleiðingum að nóg hefur verið af lausum sætum til Bandaríkjanna og Kanada en næstum allt fullt þegar flogið var til Evrópu. Ef það hefur verið raunin má velta því fyrir sér hvort stjórnendur Icelandair hefðu ekki átt að sjá ójafnvægið fyrir, í ljósi reynslunnar, jafnvel þó ástandið sem MAX þoturnar hafa valdið sé sannarlega fordæmalaust eins og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hefur komist að orði. Upphafleg sumaráætlun félagsins byggði nefnilega á því að fjórða hver þota í flota þess væri af gerðinni Boeing MAX.

Talning Túrista á fjölda flugferða hjá Icelandair eftir heimsálfum sýnir að í júlí í ár var hlutfallið það sama og það var áður en ójafnvægið komst á í fyrra. Þess háttar talning gefur hins vegar ekki jafn góða sýn á stöðuna og áður því núna er sætafjöldinn í flugvélum Icelandair mismunandi enda flotinn ekki einsleitur eins og áður.

Sem fyrr segir þá fullyrða stjórnendur Icelandair að ástandið á leiðakerfinu í júlí skrifist á þær breytingar sem gera þurfti á leiðakerfinu með stuttum fyrirvara vegna kyrrsetningar á MAX þotunum. Í því samhengi má benda á að það var ekki fyrr en í lok maí sem Icelandair tók MAX þoturnar út úr áætlun sinni frá og með miðjum júlí. Flugfélög eins og Air Canada, Southwest og American Airlines höfðu gripið til þess háttar ráðstafanna nokkru áður. Hjá Icelandair voru greinilega bundnar vonir við að þoturnar kæmust í loftið mun fyrr enda sagði Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Icelandair, á afkomufundi þann 6. maí, að tæknilega væri búið að leysa allt það sem kom upp í flugslysunum tveimur sem leiddu til kyrrsetningarinnar. Hann sagði jafnframt að sú lausn Boeing yrði vottuð af amerískum flugmálayfirvöldum fyrir miðjan maí.

Hálfum mánuði síðar gaf Icelandair það hins vegar út að flugáætlun félagsins yrði breytt fram í miðjan september. Og í júlí var fresturinn lengdur fram í lok október en þá hefst vetraráætlunin formlega.

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …