Hlut­fall flug­kvenna hærra hjá Icelandair

Það eru sárafá dæmi um konur sem stýra flugfélögum en hlutfall kvenna sem fljúga farþegaþotum verður sífellt hærra.

icelandair 767 757
Mynd: Icelandair

Þegar forstjórar helstu flug­fé­laga heims hittust á ársfundi IATA, alþjóða­sam­taka flug­fé­laga, nú í ágúst kusu þeir samtök­unum nýja stjórn. Í henni eiga 29 karlar sæti en bara ein kona. Skýr­ingin á þessum ótrú­lega kynja­halla er einfald­lega sú að konurnar í forstjóra­stólum flug­fé­lag­anna eru örfáar. Og þeim fer fækk­andi eftir nýleg forstjóra­skipti í bresku flug­fé­lög­unum Flybe og þar á undan easyJet.

Þróunin er önnur þegar kemur að því að stýra farþega­þotum því konum í stétt flug­manna og flug­stjóra fer fjölg­andi. Það er þó aðeins komið upp í rúmlega fimm af hundraði á heimsvísu. Hjá Icelandair er hlut­fallið miklu hærra eða þrettán prósent og ekkert annað vest­rænt flug­félag státar af álíka. Þannig er vægi kven­kyns atvinnuflug­manna á launa­skrá hjá Luft­hansa og United Airlines rétt um átta prósent en þau félög standa næst­best á þessu sviði samkvæmt úttekt sem Forbes tíma­ritið birti í fyrra.

Að sögn Lindu Gunn­ars­dóttur, yfir­flug­stjóra Icelandair, þá er staða flug­kvennaa í heim­inum mjög mismun­andi eftir löndum. „Hæsta hlut­fall kvenna í flugi er á Indlandi en það þarf ekki að leita lengra en til Bret­lands til að finna dæmi þess að kven­flug­mönnum sé sagt upp störfum ef þær verða óléttar. Það er því mikið verk óunnið til að gera starfið aðlandi fyrir konur víðast hvar,” segir Linda.

Aðspurð um ástæður þessa háa hlut­falls hjá Icelandair þá segir Linda að fyrir tæpum áratug hafi konum í flugnámi allt í einu farið að fjölga veru­lega. „Senni­lega vegna þess að þá var komin kynslóð sem leit á atvinnuflug sem raun­veru­legan valkost fyrir konur vegna þess að þær höfðu fyrir­myndir af öðrum konum í flugi. Konum í umsókn­ar­ferli fjölgaði því veru­lega en bæði kynin fara að sjálf­sögðu í gegnum sama umsókn­ar­ferli hjá Icelandair. Það hjálpar líka til hvað staða kvenna er sterk hér á landi varð­andi barneign­ar­leyfi og vistun barna þar sem vinnu­tíminn er ekki alltaf fjöl­skyldu­vænn. Þetta gerir konum kleift að samræma vinnu og einkalíf.”

Á síðasta ári var Linda beðin um að halda fyrir­lestur á ráðstefnu sem haldin var af Alþjóða flug­mála­stofn­un­inni og Jafn­rétt­is­stofnun Sameinuðu þjóð­anna í S‑Afríku. Þar fór hún yfir stöðuna hjá Icelandair og ástæður þess að félagið hefur náð eins langt í þessum efnum og raun ber vitni. „Við reynum því að leggja okkar af mörkum til að styrkja stöðu kvenna annars staðar í heim­inum því við vitum að bland­aðir vinnu­staðir eru afar ákjós­an­legir fyrir margra hluta sakir eins og fjöl­margar rann­sóknir hafa sýnt fram á,” segir Linda að lokum.