Högg fyrir ferðaþjónustuna fyrir norðan

Breska ferðaskrifstofan Super Break sem selt hefur pakkaferðir til Akureyrar frá Bretlandi er gjaldþrota.

Farþegar á vegum Super Break á Akureyrarflugvelli. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Síðustu tvo vetur hefur breska ferðaskrifstofan Super Break boðið upp Íslandsferðir þar sem flogið er beint frá nokkrum breskum borgum til Akureyrar. Áætlunin var að halda uppteknum hætti í vetur og voru fjórtan ferðir á dagskrá frá febrúar og út apríl á næsta ári. Af þeim verður ekki því í dag varð Super Break gjaldþrota líkt og fram kemur í tilkynningu á Twitter síðu ferðaskrifstofunnar. Heimasíða Super Break er ekki lengur aðgengileg.

Ljóst er að Íslandsferðir Super Break hafa verið lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi og samkvæmt tölum breska flugmálayfirvalda þá nýttu rúmlega sjö þúsund farþegar sér ferðirnar í janúar, febrúar og mars í ár. Þar sem farþegar eru taldir bæði þegar þeir fljúga frá Bretlandi og líka heim þá má gera ráð fyrir að þetta hafi verið um 3.500 einstaklingar. Og í ljósi þess að pakkaferðir Super Break voru ýmist þriggja eða fjögurra nátta þá hafa viðskiptavinir ferðaskrifstofunnar staðið fyrir um 12 þúsund gistinóttum á norðlenskum hótelum fyrstu þrjá mánuðina í ár. Samtals voru erlendar hótelnætur á Norðurlandi um 35 þúsund á tímabilinu og því ljóst að vægi Super Break hefur verið mikið. Gjaldþrotið er því augljóslega áfall fyrir ferðaþjónustuna fyrir norðan. Íslandsflug Super Break hefur notið styrkja úr flugþróunarsjóði.