Íslandshótel rekin með tapi

Tekjurnar drógust saman hjá stærstu hótelkeðju landsins á fyrri helmingi ársins og afkoman var neikvæð. Öfugt við sama tíma í fyrra. Framkvæmdastjóri Íslandshótela segir sumarið hafa verið þokkalegt og horfurnar ágætar.

Frá Fosshótel Reykjavík sem er eitt af þeim hótelum sem tilheyra Íslandshótelum. Mynd: Fosshótel

Það eru sautján hótel út um allt land sem tilheyra Íslands­hót­elum og fyrirtækið er það umsvifamesta á íslenska hótelmarkaðnum. Reksturinn á fyrri helmingi ársins gekk hins vegar mun verr en á sama tíma í fyrra. Þá nam heildarhagnaðurinn um 292 milljónum króna en núna var hótelkeðjan rekin með nærri 184 milljón króna tapi samkvæmt nýbirtu uppgjöri fyrirtækisins.

Skýringin á þessari neikvæðu þróun liggur fyrst og fremst í samdrætti á tekjum að sögn Davíðs Torfa Ólafssonar, framkvæmdastjóra Íslandshótela. Nefnir hann sem dæmi að janúar og apríl hafi verið mjög slakir en verkföll settu mark sitt á síðarnefnda mánuðinn.

Tekjur Íslandshótela á fyrri helmingi ársins námu nærri 4,9 milljörðum króna sem er lækkun tæpan hálfan milljarð frá sama tíma í fyrra. Heildargjöldin lækkuðu um nærri helmingi lægri upphæð en launakostnaður hækkaði milli tímabila.

Að sögn Davíðs Torfa þá hefur sumarið verið þokkalegt hjá Íslandshótelum og horfurnar ágætar. Fyrirtækið á meðal annars Fosshótel Reykjavík sem er stærsta hótel landsins og einnig Grand Hótel Reykjavík. Fosshótel Íslandshótela er að finna í öllum landsfjórðungum.